Fjölnir endurheimti þriðja sætið – Grótta í fjórða sætið

Mikill atgangur í vítateig Aftureldingar í leik liðsins gegn Gróttu …
Mikill atgangur í vítateig Aftureldingar í leik liðsins gegn Gróttu í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Fjölnir vann öruggan 4:1-sigur á KV þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Vesturbænum í gærkvöldi. Grótta vann þá frábæran 4:2-endurkomusigur á Aftureldingu á Seltjarnarnesi.

Arnar Númi Gíslason og Dagur Ingi Axelsson komu Fjölni í 2:0 þegar aðeins 14 mínútur voru liðnar af leiknum.

Þannig stóðu leikar í hálfleik en eftir rúmlega klukkutíma leik var staðan orðin 4:0.

Hákon Ingi Jónsson skoraði þriðja mark Fjölnis á 52. mínútu og bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki gestanna á 63. mínútu.

Í uppbótartíma lagaði Jökull Tjörvason stöðuna ögn fyrir KV.

Öruggur sigur Grafarvogsbúa þar með í höfn sem fleytir liðinu aftur upp í þriðja sæti deildarinnar, þar sem liðið er sex stigum á eftir nágrönnum sínum í Fylki, sem á leik til góða gegn Vestra á Ísafirði á morgun.

KV er áfram í 11. sæti, fallsæti, sex stigum frá öruggu sæti.

Mun meiri spenna var í leik Gróttu og Aftureldingar þar sem fjórða sætið var í boði fyrir sigurliðið.

Belginn Marciano Aziz kom Afturelding í forystu með marki úr vítaspyrnu á 26. mínútu og var staðan 0:1 í leikhléi.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Englendingurinn Luke Rae metin fyrir Gróttu.

Eftir tæplega klukkutíma leik skoraði Aziz aftur og það öðru sinni úr vítaspyrnu, og kom Aftureldingu í forystu á nýjan leik.

Undir lokin tókst heimamönnum í Gróttu hins vegar að snúa taflinu við.

Fyrst skoraði Kjartan Kári Halldórsson á 85. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar bætti Ívan Óli Santos við þriðja markinu.

Í uppbótartíma skoraði Rae svo annað mark sitt og fjórða mark Seltirninga.

Grótta er þar með komið upp í fjórða sæti þar sem liðið er tveimur stigum á eftir Fjölni í þriðja sætinu.

Afturelding heldur kyrru fyrir í sjötta sæti.

mbl.is