Grindavík þurfti að hafa fyrir hlutunum

Tobin Carberry úr Hetti á fullri ferð í leiknum í ...
Tobin Carberry úr Hetti á fullri ferð í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Atli Berg Kárason

Grindavík sigraði Hött 81:71 í 13. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld en leikið var á Egilsstöðum. Fylgst  var með gangi mála hér á mbl.is, en leikurinn fór alla leið í framlengingu.

Grindvíkingar sóttu sigur í Egilsstaði, en þeir máttu hafa mikið fyrir hlutunum gegn Hattarliði sem greinilega hafði öðlast sjálfstraust eftir fyrsta sigur sinn á tímabilinu fyrir viku.

Höttur byrjaði leikinn betur og hafði frumkvæðið meira og minna allan leikinn. Mest náði liðið níu stiga forskoti í 2. leikhluta en gestirnir náðu að minnka muninn með góðum kafla og staðan 39:36 í hálfleik. Grindvíkingarnir hittu mjög illa framan af og flest benti til þess að Hattarmenn gætu nælt sér í sinn annan sigur.

En Þorleifur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur náði að keyra sína menn áfram og þeir héldu sér inni í leiknum og óx ásmegin eftir því sem leið á. Í fjórða leikhluta virtust Hattarmenn missa móðinn í sóknarleiknum og Grindvíkingar náðu að halda besta manni Hattar,  Tobin Carberry, í ákveðinni spennitreyju svo að ekkert flæði var í leik liðsins.

Eftir mikinn darraðadans á lokasekúndunum þar sem bæði lið brenndu af mikilvægum vítaskotum varð staðan 69:69 í leikslok og framlenging staðreynd. Þar voru Grindvíkingar sterkari og lönduðu 10 stiga sigri, 81:71.

Tobin Carberry fór fyrir heimamönnum eins og jafnan með 34 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá gestunum átti Ómar Örn Sævarsson mjög góðan leik með 20 stig og 15 fráköst en Þorleifur Ólafsson skoraði 21 stig

Framlenging: Höttur 71:81 Grindavík

Grindavík byrjaði betur og komst yfir. Þrátt fyrir harðar atlögur Hattarmanna vildi boltinn ekki detta og flautin létu ekki á sér kræla heldur þeim megin. Meira virtist eftir á tanknum Grindavíkurmegin og þeir lönduðu sigrinum

Fjórði leikhluti: Höttur 69:69 Grindavík

Hattarmenn áttu erfiða leikhluta í sókninni og gátu hreinlega ekki keypt sér villur á löngum köflum. Þorleifur Ólafsson dró sína menn upp úr doðanum og þeir komust yfir þegar rúm 1 mínúta var eftir. Heimamenn voru mjög óhressir með hvað gestirnir komust upp með, en þegar ekkert er dæmt heitir það góð vörn. Síðustu sekúndurnar voru æsispennandi. Helgi misnotaði tvö víti fyrir heimamenn en Jón Axel skoraði úr tveimur fyrir gestina og kom þeim yfir þegar 12 sekúndur voru eftir. Tobin skoraði þá fyrir Hött þegar 5 sekúndur eru eftir. Jóhann Árni fór á línuna fyrir Grindavík og misnotaði annað skotið. Sigmar fékk færi á að klára en tókst ekki. Framlenging á Egilsstöðum.

Þriðji leikhluti: Höttur 58:50 Grindavík

Það er seint hægt að kalla þetta fallegan leik. En liðunum er sennilega sama, og Hattarmönnum örugglega sama, svo lengi sem þeir ná að landa þessu svona. Grindvíkingar hafa hangið í Tobin Carberry og þá reynir á aðra Hattarmenn. Mirko og Sigmar hafa svarað kallinu til þessa, sá fyrrnefndi meðal annars með flautukörfu í lok leikhlutans.

Annar leikhluti: Höttur 39:36 Grindavík

Ekki mikill sóknarleikur í boði í dag en töluverð barátta. Hattarliðið virkar heilt yfir heilsteyptara og ákveðnara í dag en Grindvíkingar andlausir á löngum köflum. Þeir hafa þó náð að rífa sig upp öðru hvoru og virtust hafa fundið svar við varnarleik Hattar um miðjan 2. leikhluta. Tobin Carberry fer fyrir heimamönnum með 20 stig. Hann kemur vel undan jólafríinu.

Fyrsti leikhluti: Höttur 20:17 Grindavík

Það var ekkert að gerast í sóknarleik liðanna fyrr en síðustu tvær mínúturnar. Þá rigndi stigum úr ólíklegustu áttum. Ómar Örn Sævarsson var sá sem helst gladdi augað hjá annars frekar rænulausum Grindvíkingum. Hann varði tvö skot og skoraði mikilvæga körfu og setti víti að auki. Varnarleikurinn sem gafst Hetti svo vel á móti Njarðvík var líka að skila sínu í þessum 1. leikhluta.

1. Leikurinn er hafinn

Höttur er á botni deildarinnar með 2 stig en vann sinn fyrsta sigur í vetur í síðustu umferð, gegn Njarðvík. Grindavík er með 8 stig í níunda sætinu, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti en tveimur stigum á eftir Snæfelli sem er í áttunda sæti. Stigin tvö í kvöld geta því haft geysilega mikið að segja um framhaldið hjá báðum liðum.

Charles Garcia hjá Grindavík stekkur hæst í leiknum í kvöld.
Charles Garcia hjá Grindavík stekkur hæst í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Atli Berg Kárason
mbl.is