Þriðji á fjórum árum

Berglind Gunnarsdóttir.
Berglind Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Deildarmeistaratitilinn er vanmetinn, en klárlega með erfiðari titlum að ná,“ sagði Berglind Gunnarsdóttir, leikmaður nýkrýndra deildarmeistara Snæfells í körfuknattleik, við Morgunblaðið í gær.

Þegar ein umferð er eftir í Dominos-deild kvenna hefur Snæfell þegar tryggt sér sigurinn og er það í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem bikarinn fer í Hólminn.

Næstsíðasta umferð deildarinnar fór fram um helgina, en fyrir leikina var ljóst að sigur gegn Grindavík myndi tryggja Snæfelli titilinn. Það gekk eftir, Snæfellsliðið vann 77:65 í Grindavík og fer því áhyggjulaust í heimaleik gegn Keflavík á morgun í lokaumferðinni. Ef Snæfell hefði tapað um helgina hefði orðið hreinn úrslitaleikur á morgun um deildarmeistaratitilinn.

„Þegar bikarinn er kominn í hús er flott að vita að við séum búnar að tryggja okkur hann. En það verður ekkert eftir í þessum leik, hausinn þarf að vera í lagi þó að deildarmeistaratitillinn sé í höfn. Við förum í alla leiki til þess að vinna, en þetta tekur ákveðna pressu af okkur og þetta er klárlega það sem við stefndum að,“ sagði Berglind, sem sjálf skoraði 26 stig í sigri Snæfells.

Sjá allt viðtalið við Berglindi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag