Reyndari menn verða að kenna mér að fagna

Kristófer Acox í baráttu gegn Grindavík í kvöld.
Kristófer Acox í baráttu gegn Grindavík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Kristófer Acox vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitill er hann skoraði 14 stig í 95:56 sigri KR-inga á Grindavík í oddaleik lokaúrslitanna á Íslandsmóti karla í körfubolta. Hann var að sjálfsögðu sigurreifur í leikslok.

„Við erum búnir að vera frekar slappir í síðustu leikjum, en við náðum að sýna okkar rétta andlit í kvöld, fyrir framan geggjaða stuðningsmenn sem fylltu húsið. Þetta gerist ekki betra, þó þetta hafi verið oddaleikur og það hafi verið komið smá stress og spenna."

„Við vorum ekki að hugsa um að gera mistök eða pæla í smáatriðum, við vorum að spila frjálst. Við höfðum gaman að þessu og gerðum þetta fyrir hvorn annan og það small hjá okkur í kvöld."

Kristófer kom inn í lið KR í úrslitakeppninni og segist hann hafa gert það til að upplifa nákvæmlega þetta.

„Ég er ekki búinn að vera hérna í allan vetur, en ég kom inn í þetta nákvæmlega fyrir svona augnablik og þetta er minn fyrsti titill. Ég mun skemmta mér með liðinu í kvöld, en ég kann ekki að fagna titli, reyndari menn verða að kenna mér á þetta."

Kristófer er ekki viss hvað sé framundan hjá sér.

„Ég fer út á morgun og ég fer í lokapróf. Ég veit ekki alveg hvað ég geri í sumar og næsta vetur, það kemur í ljós á næstu vikum," sagði Kristófer að endingu. 

mbl.is