Walker sýnir listir sínar á ný með KR

Marcus Walker í leik með KR.
Marcus Walker í leik með KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríkjamaðurinn Marcus Walker er á leið aftur til landsins og aftur til KR þar sem hann sló síðast í gegn árið 2011 þegar liðið varð Íslandsmeistari.

Í þetta sinn mun Walker hins vegar spila fyrir B-lið KR í bikarkeppninni, Malt-bikarnum. Bumbulið KR er það kallað, en liðið mætir Breiðabliki næstkomandi föstudag í 16 liða úrslitum keppninnar. Frá þessu greinir hann á Facebook.

Þegar KR varð Íslandsmeistari árið 2011 skoraði Walker um 26 stig að meðaltali í leik og heil 40 stig í lokaleik úrslitaeinvígisins gegn Stjörnunni. Hann var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar þá um vorið.

mbl.is