Er stór og verð að gera eitthvað

Helena Sverrisdóttir, Haukum, og Ivory Crawford, Breiðabliki, berjast um boltann …
Helena Sverrisdóttir, Haukum, og Ivory Crawford, Breiðabliki, berjast um boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðskonan Helena Sverrisdóttir átti stórleik er Haukar unnu Breiðablik, 87:69, í 12. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í kvöld.

Breiðablik var búið að vinna Hauka tvisvar í vetur, bæði í deild og bikar, en heimamenn höfðu mikla yfirburði á Ásvöllum í kvöld og voru aldrei líklegir til annars en sigurs. Hversu mikilvægt var að byrja leikinn vel eftir erfiðleikana undanfarið?

„Það var gríðarlega mikilvægt, þetta er búið að vera erfitt undanfarið og við höfum beðið eftir að þetta myndi snúast við. Það var frábært að fá góða byrjun hérna og svo héldum við út allan leikinn annað en við höfum verið að gera.“

Eftir að hafa tapað í tvígang gegn Blikum í vetur, nú síðast í bikarnum, var hefnd ofarlega í huga leikmanna Hauka í kvöld?

„Auðvitað er extra hvati gegn liðinu sem sló þig út úr bikarnum þannig að það er frábært að ná í sigur í dag. Við höfum tapað fyrir öllum í deildinni nema Njarðvík og okkur finnst við vera betri en það.“

Helena skoraði 26 stig og var með yfir 20 fráköst í leiknum og segir hún að betri varnarleikur hafi skilað sigrinum í kvöld.

„Við spiluðum vörn miklu betur en undanfarið, vorum miklu ákveðnari og það er það sem gaf okkur þetta því þá fengum við auðveldari körfur með og það skiptir máli. Það hefur líka verið að hrjá okkur, þessi sóknarfráköst andstæðinganna. Þær voru með yfir 10 í fyrri hálfleik sem er of mikið en ég er bara stór og verð að gera eitthvað þarna inni.“

Deildin er ótrúlega jöfn í vetur og reiknar Helena með að það verði svo áfram.

„Miðað við hvernig þetta er búið að vera, þetta er búið að vera ógeðslega jafnt og ég held að það haldi áfram. Við vorum bjartsýnar fyrir tímabilið, byrjuðum frábærlega en eigum svo slæman nóvember og töpum og töpum. Nú höfum við vonandi snúið þessu við og getum haldið áfram á þessari braut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert