Verðum að vera klárir andlega

Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR-inga, hefur lyft bikarnum á loft undanfarin tvö ár og hann stefnir að því að gera það þriðja árið í röð en KR-ingar mæta 1. deildarliði Breiðabliks í undanúrslitum Maltbikarsins í Laugardalshöllinni í kvöld.

Það verður að teljast ansi líklegt að KR komist í úrslitaleikinn fjórða árið í röð en ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar ættu undir öllum venjulegum kringumstæðum að leggja Blikana að velli í kvöld.

„Við yrðum vonsviknir ef við kæmumst ekki í úrslitaleikinn en við lentum í gríðarlegum vandræðum í fyrra á móti 1. deildarliði Vals en náðum að lokum að kreista fram sigur. Við höfum átt í erfiðleikum með 1. deildarlið í síðustu fjórum bikarleikjum okkar svo það er ekkert vanmat í gangi hjá okkur varðandi Blikana,“ sagði Brynjar Þór í samtali við mbl.is.

„Bikarleikir eru talsvert öðruvísi en deildarleikir og oft er það þannig í bikarnum að betra liðið á pappírunum vinnur ekki alltaf. Það skiptir því máli fyrir okkur að vera rétt stilltir og vera klárir andlega. Þó svo að við höfum verið iðnir við að taka á móti bikurum er hungrið enn til staðar hjá okkur. Það yrði stórkostlegt að komast í úrslitaleikinn fjórða árið í röð. Við erum að ákveðnu leyti líka að keppa við söguna. Það eru ekki mörg lið sem hafa unnið bikarinn þrjú ár í röð og það yrði gaman að geta sagt frá því síðar meir að hafa unnið tvöfalt þrjú ár í röð. Það hefur verið stígandi í okkar leik og varnarleikurinn hefur lagast gríðarlega mikið hjá okkur. Það er allt önnur ára yfir liðinu núna heldur en um miðjan nóvember þegar við vorum verstir.“

Spurður út í hina undanúrslitarimmuna þar sem Haukar og Tindastóll eigast við sagði Brynjar Þór:

„Mér finnst Haukarnir vera klárlega sigurstranglegri. Þeir hafa verið á mikilli siglingu og hafa unnið að ég held átta leiki í röð. Haukarnir hafa spilað sem ein heild þar sem Kári hefur stjórnað leik þeirra virkilega vel og hefur verið einn besti leikmaðurinn á tímabilinu. Það eru því sterkar líkur á að KR og Haukar eigist við í úrslitaleiknum en það er samt ekkert gefið í þessu.“

Benedikt Guðmundsson, körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, spáir í spilin í undanúrslitaleikjunum í Morgunblaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert