Þeir leggjast ekkert á fjóra

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var vitanlega ánægður eftir 76:67-sigur deildarmeistaranna gegn KR í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Ásvöllum í kvöld. Haukar eru því komnir í 1:0-forystu í einvígi liðanna en næsti leikur fer fram í vesturbænum á mánudag.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn,“ var það fyrsta sem Ívar sagði við blaðamann mbl.is eftir leikinn í kvöld. „Ég er mjög ánægður með vörnina en við hefðum getað gert betur sóknarlega,“ bætti Ívar við.

Haukar spiluðu frábæran sóknarleik í fyrsta leikhluta þar sem þeir skoruðu 30 stig. Ívar sagði að það hefði að einhverju leyti verið á kostnað varnarleiks. 

„Þá vorum við að fá á okkur aumingjakörfur og vorum ekki að spila vörnina eins og við settum hana upp. Mér fannst vörnin batna eftir því sem leið á leikinn,“ sagði Ívar og bætti við að Haukar væru að spila á móti mjög góðu liði.

„Við getum ekki ætlast til þess að við förum að hlæja að þeim hérna í undanúrslitum. Þetta eru Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára og er ekki lið sem leggst á fjóra og lætur keyra yfir sig.“

Ívar sagðist helst vilja bæta sóknarleikinn fyrir næsta leikinn í einvíginu. „Við þurfum að vera aðeins skynsamari en við fórum stundum að gera smá vitleysu af því við vorum með forystu. Við vitum að KR-ingar verða brjálaðir í næsta leik og við þurfum að undirbúa okkur vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert