„Þetta er bara skrípó“

Arnar Guðjónsson var annar aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins þar til í …
Arnar Guðjónsson var annar aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins þar til í sumar. mbl.is/Hanna

„Þetta skiptir ekki neinu máli. Þetta er bara „skrípó“ – fá alla saman til að eiga möguleika á viðtölum og svona, og okkur er alveg sama. Það breytir ekki okkar markmiðum hvað einhver spá segir.“

Þetta segir Arnar Guðjónsson sem tók við sem þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta í sumar. Stjörnunni var í vikunni spáð sigri í Dominos-deildinni í vetur, í árlegri spá þjálfara, fyrirliða og formanna liðanna í deildinni. Spáin var kynnt á kynningarfundi KKÍ í Laugardalshöll þar sem mbl.is ræddi við Arnar.

Arnar, sem er 32 ára gamall, hefur síðustu ár verið aðstoðarlandsliðsþjálfari og þjálfari Svendborg í dönsku úrvalsdeildinni. Hann tekur við Stjörnunni af Hrafni Kristjánssyni en Stjarnan féll út í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar síðasta vor. Nú er stefnan sett á titil:

„Við ætlum að reyna að verða besta liðið á landinu í apríl og maí. Það er auðvitað langur vegur að því markmiði, við þurfum að vinna vel í okkar leik og reyna að bæta okkur dag frá degi. Það er svo langt þangað til að við komum inn í vorið og það getur margt breyst. En við stefnum að því að vera með besta liðið í úrslitakeppninni,“ segir Arnar, og honum líst vel á að vera kominn í íslensku úrvalsdeildina:

Koma Ægis Þórs Steinarssonar er ein af ástæðum þess að …
Koma Ægis Þórs Steinarssonar er ein af ástæðum þess að Stjörnunni er spáð efsta sæti Dominos-deildarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Mjög vel, annars hefði ég ekkert komið. Mér finnst þetta mjög spennandi. Ég er ánægður með félagið, ánægður með utanumhaldið og sáttur með leikmennina sem við erum komnir með. Ég er bara mjög glaður. Maður hefur horft á 3-4 leiki í hverri umferð síðustu 6-7 árin svo að maður þekkir þetta mjög vel,“ segir Arnar. Hann kímir aðspurður hvaða lið muni berjast um titlana í vetur:

„Mig langar bara að vinna á föstudaginn, ég er bara að pæla í því núna. Ég ætla ekki að missa svefn yfir því hvernig aðrir leikir gætu farið. Við ætlum að vera klárir á föstudaginn, það er akkúrat það sem við erum að hugsa um núna.“

Stjarnan mætir ÍR annað kvöld í 1. umferð Dominos-deildarinnar. Deildin hefst í kvöld með fjórum leikjum en þá mætast Tindastóll og Þór Þ., KR og Skallagrímur, Grindavík og Breiðablik, og Valur og Haukar. Njarðvík og Keflavík mætast svo einnig annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert