Þurfum að þroskast hratt

Borche Ilievski, þjálfari ÍR.
Borche Ilievski, þjálfari ÍR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægður með að vera búinn að brjóta ísinn. Við vildum ná í okkar fyrsta sigur í deildinni í dag eftir tapið gegn Stjörnunni og það tókst,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir 84:66-sigur liðsins gegn Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði dag í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

„Þetta var góður útisigur hjá okkur og við vorum sterkari aðilinn allan tímann og áttum sigurinn skilinn. Heilt yfir þá er ég sáttur með spilamennsku minna manna þótt það séu vissulega ákveðnir hlutir í leik okkar sem ég er ósáttur með. Við þurfum að þroskast hratt og það var mikilvægt fyrir okkur að stíga upp í fjarveru Matta. Ég veit ekki hversu lengi hann verður frá en þetta lítur ekki vel út. Hann meiddist á ökkla og gæti verið frá í einhvern tíma. Við erum ekki með breiðan hóp og megum því illa við svona skakkaföllum en vonandi eru meiðsli Matta ekki alvarleg.“

Haukum tókst að minnka forskot ÍR-inga niður í fjögur stig í öðrum leikhluta en þá settu Breiðhyltingar í annan gír og sigldu sigrinum þægilega í höfn.

Hákon Örn Hjálmarsson í baráttunni við Matic Macek á Ásvöllum …
Hákon Örn Hjálmarsson í baráttunni við Matic Macek á Ásvöllum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ætlum okkur stóra hluti

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og tókum afgerandi forystu. Þegar ég fór að hreyfa við byrjunarliðinu kom of dauður kafli hjá okkur og okkur gekk illa að skora. Þeir ná að minnka muninn í fjögur stig í öðrum leikhluta en mér fannst strákarnir bregðast vel við því og eftir það tókum við afgerandi forystu í leiknum sem við létum aldrei af hendi.“

ÍR fór alla leið í undanúrslit úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð en Borche segir að það gæti reynst liðinu erfitt að leika það eftir í ár.

„Ég er metnaðarfullur þjálfari en ég er með nýtt lið í höndunum og eins og staðan er núna er ekki raunhæft að fara jafnlangt í úrslitakeppninni og við gerðum í fyrra. Það tekur tíma að púsla saman nýju liði en við ætlum okkur engu að síður stóra hluti í ár,“ sagði Borche í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert