Annað tap meistaranna

Giannis Antetokounmpo treður gegn ríkjandi meisturum Golden State Warriors í ...
Giannis Antetokounmpo treður gegn ríkjandi meisturum Golden State Warriors í nótt. AFP

Ríkjandi meistarar í NBA-deildinni í körfuknattleik, Golden State Warriors, töpuðu sínum öðrum leik í deildinni í vetur í nótt þegar Milwaukee Bucks kom í heimsókn en leiknum lauk með 134:111-sigri Bucks. 

Jafnfræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Bucks unnu annan leikhluta með 10 stigum og var staðan í hálfleik 64:51, Bucks í vil. Bucks vann þriðja leikhluta með 13 stigum og var það nóg til þess að leggja meistarana. 

Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 24 stig og 3 fráköst. Næstur á eftir honum kom Kevin Durant með 17 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar. Stephen Curry hafði hægt um sig í nótt og skoraði einungis 10 stig. 

Eric Bledsoe og Giannis Antetokounmpo fóru mikinn í liði Bucks en Bledsoe skoraði 26 stig, tók fjögur fráköst og gaf sex stoðsendingar. Giannis eða gríska „fríkið“ eins og hann er jafnan kallaður skoraði 24 stig, tók 9 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Úrslit næturinnar í NBA-deildinni:

Oklahoma City Thunder 98:80 Houston Rockets
Phoenix Suns 109:116 Boston Celtics
Portland Trail Blazers 116:105 LA Clippers
Golden State Warriors 111:134Milwaukee Bucks

mbl.is