Ætluðum að brjóta þær niður

Hildur Björg Kjartansdóttir í leiknum í kvöld.
Hildur Björg Kjartansdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er sátt með baráttuna hjá liðinu. Það er fúlt að tapa, en þetta er mun betra en á laugardaginn,“ sagði Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfubolta, eftir 74:84-tap fyrir Bosníu í undankeppni EM í Laugardalshöll í kvöld. Ísland tapað með 30 stigum fyrir Slóvakíu á laugardaginn var. 

Hún segir litla hluti skilja liðin að í kvöld. 

„Við vorum að hitta mjög illa úr þriggja stiga skotum í dag. Ef við hefðum sett 2-3 skot í viðbót hefði þetta verið allt annar leikur. Við vissum að þær myndu mæta til leiks alveg brjálaðar og við ætluðum að mæta þeim með sömu hörku og vonandi brjóta þær niður.“

Íslenska liðið tapaði öllum sex leikjum sínum í undankeppninni, en Hildur segir hana fara í reynslubankann. 

„Við erum búnar að læra helling og við höldum áfram að bæta í reynslubankann og laga þau mistök sem við erum búin að vera að gera svo leiðin er bara upp á við.

Hildur var stigahæst allra með 27 stig og átti hún afar góðan leik. 

„Stelpurnar voru að finna mig inni í og þær áttu erfitt með að dekka mig. Þetta var samvinna okkar allra sem gekk svona vel,“ sagði Hildur Björg hógvær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert