Martin besti maður vallarins í sigri

Martin Hermannsson átti frábæran leik fyrir Alba Berlín gegn Bonn.
Martin Hermannsson átti frábæran leik fyrir Alba Berlín gegn Bonn. Ljósmynd/Eurocupbasketball

Martin Hermannsson átti frábæran leik og skoraði 16 stig, tók tvö fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir Alba Berlín þegar liðið vann 93:81-útisigur gegn Bonn í þýsku A-deildinni í körfuknattleik í dag.

Alba Berlín leiddi með 12 stigum eftir fyrsta leikhluta en staðan í hálfleik var 51:41, Alba Berlín í vil. Munurinn á liðunum eftir þriðja leikhluta var fimm stig en Alba Berlín vann fjórða leikhluta með sjö stigum og sigurinn því sanngjarn þegar upp var staðið.

Martin spilaði í rúmar 24 mínútur í leiknum í dag en hann var framlagahæstur allra á vellinum með 17 framlagspunkta. Alba Berlín er í fjórða sæti þýsku deildarinnar með 26 stig eftir 17 leiki en Alba Berlín á tvo leiki til góða á topplið Bayern sem er með 38 stig.

mbl.is