San Antonio knúði fram oddaleik

Paul Millsap í baráttunni við LaMarcus Aldridge í San Antonio ...
Paul Millsap í baráttunni við LaMarcus Aldridge í San Antonio í nótt. AFP

San Antonio Spurs tryggði sér oddaleik gegn Denver Nuggets í átta liða úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt í San Antonio. Leiknum lauk með 120:103-sigri San Antonio Spurs en LaMarcus Aldridge átti frábæran leik fyrir Spurs og skoraði 25 stig og tók tíu fráköst.

San Antonio byrjaði leikinn betur og leiddi með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta. Denver tókst að klóra í bakkann í öðrum leikhluta og var munurinn á liðunum fjögur stig í hálfleik, 64:60, San Antonio í vil. Munurinn á liðunum var fimm stig fyrir fjórða leikhluta en í fjórða leikhluta tókst San Antonio loksins að hrista Denver af sér.

DeMar DeRozan átti einnig góðan leik fyrir San Antonio en hann skoraði 25 stig, tók sjö fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hjá Denver Nuggets var Nikola Jokic langstigahæstur með 43 stig, tólf fráköst og níu stoðsendingar en það dugði ekki til og staðan í einvíginu er því 3:3. Oddaleikur liðanna fer fram í Denver 27. apríl.

mbl.is