Gasol samdi við meistarana

Marc Gasol.
Marc Gasol. AFP

Spænski miðherjinn Marc Gasol hefur samþykkt að spila áfram með nýkrýndum NBA meisturum í Toronto Raptors.

Gasol hafði frest til dagsins í dag að gera nýjan samning og Toronto Raptors greindi frá því í gærkvöld að Spánverjinn hafi samþykkt að gera eins árs samning sem tryggir honum 25,6 milljónir dollara.

Gasol kom til Toronto frá Memphis í febrúar og lagði hann sitt af mörkum til að tryggja kanadíska liðinu NBA-meistaratitilinn í fyrsta sinn í sögunni en liðið hafði betur gegn Golden State Warriors í úrslitaeinvíginu.

Gasol, sem er 34 ára gamall, skoraði 9,4 stig, tók 6,4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali fyrir Toronto í úrslitakeppninni. Hann hefur spilað 11 leiktíðir í NBA-deildinni og árið 2013 var hann útnefndur besti varnarmaður deildarinnar.

mbl.is