Strákaliðin með fullt hús á NM

Frá leik U16 ára liðs karla.
Frá leik U16 ára liðs karla. Ljósmynd/Karfan.is

U18 og U16 ára karlalandslið Íslands í körfubolta unnu sterka sigra á Svíþjóð á Norðurlandamótinu í Finnlandi í dag. Kvennalandsliðin í sömu aldursflokkum töpuðu hins vegar sínum leikjum gegn Svíþjóð.

U18 ára landslið karla vann afar sannfærandi 78:53-sigur á sænskum jafnöldrum sínum. Veigar Páll Alexandersson skoraði 18 stig og Þorvaldur Orri Árnason gerði 14 stig fyrir Ísland. Liðið hefur unnið báða leiki sína eftir sigur á Noregi í fyrsta leik. 

U 16 ára liðið vann sömuleiðis sannfærandi sigur, 75:59. Hjörtur Kristjánsson skoraði 16 stig, Ólafur Ingi Styrmisson skoraði 13 og tók 10 fráköst og Orri Gunnarsson skoraði 12 stig. Liðið hefur sömuleiðis unnið báða leiki sína til þessa. 

U16 ára lið kvenna mátti þola 49:58-tap. Lára Ösp Ásgeirsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með tíu stig og Júlía Ruth Thasaphong skoraði níu stig. Liðið tapaði fyrir Noregi í fyrsta leik og hefur því tapað báðum leikjum sínum til þessa. 

U18 ára lið kvenna fékk svo skell, 54:80. Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 14 stig fyrir Ísland og Ásta Júlí Grímsdóttir bætti við 12 stigum. Liðið vann 69:59-sigur á Noregi í fyrsta leik og hefur því unnið einn og tapað einum. 

mbl.is