Durant sendi nágrönnunum væna pillu

Kevin Durant skrifaði undir fjögurra ára samning við Brooklyn Nets …
Kevin Durant skrifaði undir fjögurra ára samning við Brooklyn Nets í sumar. AFP

Kevin Durant, leikmaður Brooklyn Nets í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik, sendi nágrönnum sínum í New York Knicks væna pillu í viðtali við útvarpsstöðina Hot97 á dögunum. Durant gekk til liðs við Nets í sumar en hann kom til félagsins frá Golden State Warriors þar sem hann varð tvívegis NBA-meistari, 2017 og 2018.

Bæði Knicks og Nets leika í New York-borg og er því ákveðinn rígur á milli liðanna. „Ég held að Knicks séu meira vörumerki í dag,“ sagði Durant. „Það er ætlast til einhvers af þessum ungu strákum sem leika með liðinu en sannleikurinn er sá að þessir leikmenn hafa aldrei upplifað það að New York Knicks séu með öflugt körfuboltalið.“

„Ég sjálfur ólst ekki upp með gullaldarkynslóð Knicks. Ég hef séð þá fara í úrslitakeppnina en kynslóðin á eftir mér man ekki eftir þessu. Vörumerkið Knicks sem slíkt er ekki kúl eins og Golden State, Lakers eða jafnvel Nets í dag. Það er ekki kúl að vera New York Knicks aðdáandi í dag,“ bætti Durant við.

mbl.is