Haukar höfðu betur í spennuleik

Haukar unnu sinn annan sigur í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld er þeir höfðu betur gegn Grindavík á heimavelli í þriðju umferð, 97:93 í stórskemmtilegum leik. Grindavík er enn án stiga. 

Liðin skiptust á að skora allan fyrsta leikhluta sem var jafn og skemmtilegur. Mikil harka var í leiknum og fengu leikmenn beggja liða að finna fyrir því. Staðan eftir hann var 25:24, Haukum í vil. 

Haukar voru sterkari í öðrum leikhluta. Þriggja stiga körfurnar fóru að detta og Kári Jónsson fór í ham. Að lokum skildu sjö stig liðin að í hálfleik, 54:47. Kári skoraði 17 stig í hálfleiknum og Jamal Olasawere skoraði 15 stig fyrir Grindavík í sínum fyrsta leik á Íslandi og leit mjög vel út. 

Grindavík gerði vel í að minnka muninn niður í eitt stig í þriðja leikhluta. Flenard Whitfield lenti í villuvandræðum og við það virtust Haukar missa trúna. Staðan var 62:61 þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður. Þá náðu Haukar aftur góðu áhlaupi og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 75:69. 

Grindavík náði fljótlega ellefu stiga forskoti í fjórða leikhluta, 81:70. Grindvíkingar neituðu hins vegar að gefast upp og með góðum kafla í kjölfarið tókst Grindavík að jafna í 90:90. Haukar skoruðu hins vegar fimm stig í röð í kjölfarið og komust í 95:90. Grindavík tókst ekki að jafna eftir það. 

Haukar 97:93 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is