LeBron James með Lakers á toppnum - Þriðja þrefalda tvennan

LeBron James er laus við meiðsli sem trufluðu hann á …
LeBron James er laus við meiðsli sem trufluðu hann á síðustu leiktíð og þá er ekki að sökum að spyrja. AFP

LeBron James er í ham í NBA-deildinni í körfubolta þessa dagana en hann fór fyrir LA Lakers í 118:112-sigri á Chicago Bulls í nótt. Chciago var 65:48 yfir í hálfleik og 93:80 yfir fyrir síðasta leikhlutann.

Lakers hófu lokaleikhlutann á því að skora 16 stig í röð og fögnuðu að lokum þriðja útisigri sínum í röð. Þeir hafa unnið sex af fyrstu sjö leikjum sinum og eru efstir í vesturdeildinni.

James skoraði þrefalda tvennu í nótt rétt eins og í síðustu tveimur leikjum, en þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem hann nær slíkri þriggja leikja törn. Í nótt skoraði hann 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Anthony Davis skoraði aðeins 15 stig og tók sjö fráköst í sinni gömlu heimaborg.

Lakers halda nú heim til Los Angeles þar sem þeir taka á móti Miami Heat á föstudaginn, en Miami hefur unnið fimm af fyrstu sjö leikjum sínum. Liðið tapaði gegn Denver Nuggets í nótt.

Úrslit þriðjudags:
Charlotte - Indiana 122:120
Chicago - LA Lakers 112:118
Cleveland - Boston 113:119
Oklahoma - Orlando 102:94
Atlanta - San Antonio 108:100
Denver - Miami 109:89

mbl.is