Ísland lenti á grískum vegg

Gunnhildur Gunnarsdóttir
Gunnhildur Gunnarsdóttir Ljósmynd/FIBA

 Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætti ofjarli sínum á Grikklandi í undankeppni EM í gær. Eftir óspennandi leik vann Grikkland að lokum 89:54, þrátt fyrir að Ísland ynni seinni hálfleikinn með einu stigi.

Grikkland spilaði hápressuvörn sem íslenska liðið réð ekkert við og fékk leikstjórnandinn Þóra Kristín Jónsdóttir oftar en ekki tvo ákafa Grikki á sig um leið og sóknir íslenska liðsins hófust. Fyrir vikið átti hún erfitt með að dreifa boltanum og urðu töpuðu boltarnir ansi margir. Það nýttu sterkir Grikkir sér og röðuðu niður stigunum. Öll tólf stig íslenska liðsins í fyrsta leikhlutanum komu úr þriggja stiga körfum og fékk Ísland ekki vítaskot fyrr en í seinni hálfleik, svo illa gekk að koma boltanum í hættusvæði.

Margt þarf að breytast

Grikkir slökuðu á í vörninni í seinni hálfleik og var ákefðin mun minni, enda löngu ljóst hvort liðið myndi vinna. Það gerði íslenska liðinu auðveldara fyrir. Helena Sverrisdóttir komst betur inn í leikinn og Sylvía Rún Hálfdanardóttir átti góða innkomu af bekknum. Gunnhildur Gunnarsdóttir nýtti öll fjögur skotin sín í leiknum. Það eru því jákvæðir punktar í leiknum og sennilega fleiri en gegn Búlgaríu á fimmtudag, gegn miklum mun sterkari andstæðingi.

Gunnhildur ræddi við Morgunblaðið eftir leik og viðurkenndi að leikmenn Íslands hefðu gert sér grein fyrir því að gríska liðið væri sterkara en það íslenska og úrslitin hefðu ekki endilega komið á óvart. „Við vissum að þær væru kannski þetta mikið betri en við, en við ætluðum að mæta með íslensku baráttuna og reyna að standa betur í þeim í fyrri hálfleik, sem tókst ekki alveg,“ sagði Gunnhildur, áður hún bætti við að Ísland þyrfti að eignast fleiri atvinnumenn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert