„Við verðum að líta í eigin barm“

Kristófer Acox (6) í leiknum í kvöld.
Kristófer Acox (6) í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Kristófer Acox segist ekki skilja hvers vegna Íslandsmeistararnir í KR séu ekki að spila betur en raun ber vitni í Dominos-deildinni í körfuknattleik.

„Annar og þriðji leikhlutarnir réðu úrslitum. Mér fannst við spila rosalega „soft“ í 35 mínútur af 40. Við leyfðum þeim að ýta okkur út úr öllu. Það var eins og við hefðum aldrei séð pressuvörn áður og fórum í kerfi. Við vorum allir að tapa boltanum á fáránlegan hátt og ég meðtalinn. Þetta voru vonbrigði og ef við horfum á spilamennsku okkar eins og hún er í dag þá eigum við gríðarlega langt í land,“ sagði Kristófer í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Njarðvík í vesturbænum í kvöld en KR tapaði boltanum tuttugu og einu sinni í leiknum.

KR vann fyrstu fjóra leikina í deildinni en tapaði næstu tveimur. KR vann góðan sigur á Keflavík á útivelli í síðustu umferð og blaðamaður bjóst við því að KR-ingar yrðu sprækir í kvöld með slíkt veganesti.

„Já ég segi það með þér. Maður hefði haldið það en það var ekki málið í kvöld. Ég veit ekki hvað þarf meira til að koma okkur í gírinn. Við vorum að tapa öðrum leiknum í röð á heimavelli. Maður hefði haldið að sigurinn í Keflavík myndi gefa okkur kraft og koma okkur yfir þessa hraðahindrun sem við höfum reynt að komast yfir í síðustu leikjum. Við þurfum að líta í eigin barm því mér fannst við ekki eiga skilið að vinna í kvöld. Eins og er erum við ekki nálægt þeim liðum sem eru á toppnum. Það er þreytt að horfa á önnur lið spila vel og hugsa af hverju getum við ekki gert það einnig þegar við erum með þetta lið í höndunum. Þannig er það alltaf í KR jafnvel þótt að það sé bara nóvember,“ sagði Kristófer Acox ennfremur.

mbl.is