Skoraði sextíu stig í þremur leikhlutum

James Harden átti stórleik í nótt.
James Harden átti stórleik í nótt. AFP

James Harden átt enn einn stórleikinn fyrir Houston Rockets þegar hann skoraði 60 stig í 158:111 stórsigri liðsins á Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Harden skoraði stigin 60 á 31 mínútu og var hann stigi frá sínu persónulega meti er hann skoraði átta þriggja stiga körfur og setti niður 20 vítaköst. Það sem meira er, Harden spilaði ekkert í fjórða leikhluta heldur horfði á félaga sína og hvíldi sig eftir frammistöðuna. Houston er í 4. sæti Vesturdeildarinnar með 13 sigra í 19 leikjum.

Sigurganga Milwaukee Bucks hélt áfram þegar liðið lagði Charlotte Hornets að velli, 137:96, en Milwaukee hefur nú unnið 11 leiki í röð, besti árangur liðsins í 35 ár.

Giannis Antetokounmpo var drjúgur með 29 stig, níu fráköst og fjórar stoðsendingar er Milwaukee vann nokkuð þægilegan liðssigur. Allir þeir þrettán leikmenn sem komu við sögu skoruðu stig. Devonte Graham setti 24 stig fyrir Charlotte í leik sem gestirnir vilja gleyma sem fyrst. Milwaukee er á toppi Austurdeildarinnar með 17 sigra í 20 leikjum.

Úrslit næturinnar
Sacramento Kings - Denver Nuggets 100:97
Philadelphia 76ers - Indiana Pacers 119:116
Houston Rockets - Atlanta Hawks 158:111
Milwaukee Bucks - Charlotte Hornets 137:96

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert