Gengum ekki frá þessu í neinum illindum

Gunnar Ólafsson og Arnar Guðjónsson.
Gunnar Ólafsson og Arnar Guðjónsson. Ljósmynd/Jóhann Ingi

„Ég hef verið að skoða mig um og leita að því rétta fyrir mig,“ sagði körfuboltamaðurinn Gunnar Ólafsson í samtali við mbl.is eftir að hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við Stjörnuna. 

„Ég vissi að ég vildi koma heim eftir þetta og fannst Stjarnan vera rétta valið fyrir mig. Það er margt sem heillaði mig við þennan klúbb. Þetta er klúbbur sem vill vera í toppbaráttu í öllu og ætlar sér Íslands- og bikarmeistaratitla. Umgjörðin er góð hérna og leikmannahópurinn og þjálfarinn frábærir,“ sagði Gunnar um nýja félagið sitt. 

Hann kemur til Stjörnunnar frá spænska B-deildarfélaginu Oviedo, þar sem hann hóf leiktíðina. Samningi hans við spænska félagið var hins vegar rift á dögunum. 

Gunnar Ólafsson á landsliðsæfingu.
Gunnar Ólafsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Tíminn á Spáni var mjög góður fyrir mig og það var gott tækifæri og góð reynsla. Það var mjög leiðinlegt að það gekk ekki upp, en að sama skapi er ég spenntur fyrir framhaldinu og bjartsýnn með þetta allt saman,“ sagði Gunnar, en hvers vegna var samningum á Spáni rift? 

„Þetta mál er ekki einfalt, það er margt sem spilar inn í og þetta er ekki svart og hvítt. Ég vil ekki fara út í nein smáatriði, en við gengum ekki frá þessu í neinum illindum heldur. Þetta gekk ekki upp og þá heldur maður bara áfram.“

Gunnar þekkir Arnar Guðjónsson, þjálfara Stjörnunnar vel, og unnu þeir saman er Arnar var aðstoðarþjálfari landsliðsins. 

Gunnar lék með Keflavík áður en hann fór til Spánar.
Gunnar lék með Keflavík áður en hann fór til Spánar. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Ég þekki Arnar vel í gegnum landsliðæfingar. Ég var aldrei í hópnum þegar hann var með landsliðinu en ég var mikið í æfingahóp. Þar kynntumst við almennilega og höfum verið í góðu sambandi síðan. Það er spennandi að vinna með honum,“ sagði Gunnar. 

Búinn að fylgjast lengi með Gunna

„Þetta er duglegur drengur sem er hörkuvarnarmaður og spilar af mikilli ákefð. Það er auðvelt að koma þannig mönnum inn í lið. Ég er búinn að fylgjast lengi með Gunna. Þegar ég var í þjálfarateyminu með landsliðinu var þetta strákur sem vakti athygli okkar þegar hann var úti í St. Francis,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. 

„Þetta er kostur til að geta spilað af meiri ákefð. Við erum með fleiri leikmenn og þurfum ekki að vera með menn í háum mínútum. Hann er svo augljóslega sterkur varnarmaður, sem er eitthvað sem okkur hefur vantað,“ bætti hann við. 

Arnar Guðjónsson þjálfar Stjörnuna.
Arnar Guðjónsson þjálfar Stjörnuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan valtaði yfir KR í síðustu umferð og styrkir sig svo verulega með komu Gunnars. Arnar segir félagið ekki endilega vera að senda skilaboð til annarra liða deildarinnar. 

„Við erum ekki að senda nein skilaboð. Við erum að ná í leikmann til þriggja ára. Hann er með möguleika á að fara aftur út ef það tækifæri gefst. Við hvetjum menn til að gera það, en á meðan hann er á Íslandi er hann með okkur næstu þrjú árin. Það er framtíðarfjárfesting fyrir félagið að tryggja okkur svona sterkan leikmann og við erum gríðarlega ánægðir með það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert