Króatinn tryggði sigurinn með flautukörfu

Bojan Bogdanovic var hetjan hjá Utah Jazz í nótt.
Bojan Bogdanovic var hetjan hjá Utah Jazz í nótt. AFP

Króatinn Bojan Bogdanovic skoraði „flautukörfu“ sem tryggði Utah Jazz magnaðan útisigur á Houston Rockets, 114:113, í uppgjöri tveggja toppbaráttuliða í Vesturdeild NBA í körfuknattleik í nótt.

Jordan Clarkson var stigahæstur hjá Utah með 30 stig en James Harden var með þrefalda tvennu fyrir Houston, 28 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Utah er nú með 34 sigra í 52 leikjum í fjórða sæti Vesturdeildar en Houston er með 33 sigra í fimmta sætinu. LA Lakers, Denver Nuggets og LA Clippers eru í þremur efstu sætunum.

Clippers vann yfirburðasigur á Cleveland Cavaliers í nótt á útivelli, 133:92, eftir að hafa skorað 73 stig í fyrri hálfleiknum. Paul George skoraði 22 stig fyrir Clippers.

Trae Young skoraði 48 stig fyrir Atlanta Hawks og átti 13 stoðsendingar þegar liðið lagði New York Knicks í framlengdum leik á heimavelli sínum, 140:135. Julius Randle skoraði 35 stig fyrir New York og tók 18 fráköst.

Jayson Tatum skoraði 26 stig fyrir Boston Celtics og tók 11 fráköst þegar liðið lagði Oklahoma City Thunder í hörkuleik á útivelli, 112:111. Sjöundi sigurleikur Boston í röð og liðið er með 37 sigurleiki í þriðja  sæti Austurdeildar, á eftir Milwaukee Bucks og Toronto Raptors.

Damian Lillard skoraði 33 stig fyrir Portland Trail Blazers sem sigraði Miami Heat, 115:109.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma City - Boston 111:112
Washington - Memphis 99:106
Atlanta - New York 140:135 (2 framlenging)
Philadelphia - Chicago 118:111
Houston - Utah 113:114
Cleveland - LA Clippers 92:133
Portland - Miami 115:109

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert