Frákastavélin áfram fyrir vestan

Nemanja Knezevic lokar á Sigurð Þorvaldsson í bikarleik gegn KR.
Nemanja Knezevic lokar á Sigurð Þorvaldsson í bikarleik gegn KR. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Vestri hefur framlengt samninginn við miðherjann sterka Nemanja Knezevic em leikið hefur með Vestfirðingum undanfarin ár í 1. deildinni í körfuknattleik. 

Knezevic er öflugri í frákastabaráttunni en gengur og gerist miðað við leikskýrslur úr deildinni og hefur oftar en einu sinni náð 20 fráköstum í leik. Hann var með tæplega 14 fráköst að meðaltali í vetur og skoraði rúm 18 stig að jafnaði. 

Knezevic er 205cm á hæð og kemur frá Svartfjallalandi en hefur búið fyrir vestan í þrjú ár. 

Fram kemur hjá Ingólfi Þorleifssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Vestra, á samfélagsmiðlum að önnur félög hafi sýnt miðherjanum áhuga. 

Alltaf gaman að skrifa undir samninga. Í þetta skiptið var það sérstaklega ánægjulegt því Nemanja er einn af bestu leikmönnum 1. deildar og ekkert sjálfgefið að hafa þennan meistara hjá okkur áfram. Eðlilega vekur hann áhuga annarra liða. Það er því ánægjulegt fyrir okkur sem stöndum að körfunni á Ísafirði að þeim hjónum líður vel á Ísafirði og hafa trú á okkar framtíðarsýn,“ skrifar Ingólfur. 

Í apríl var tilkynnt að Pétur Már Sigurðsson myndi stýra liðinu áfram. 

Pétur Már Sigurðsson.
Pétur Már Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert