Sextán leikmenn með veiruna

NBA-deildin í körfubolta fer aftur af stað í næsta mánuði.
NBA-deildin í körfubolta fer aftur af stað í næsta mánuði. AFP

Alls greindust sextán leikmenn NBA-deildarinnar í körfubolta með kórónuveiruna þegar leikmenn voru skimaðir í fyrsta skipti í undirbúningi fyrir að deildin fari af stað á nýjan leik í júlílok. 

Fara allir sem greindust með veiruna í einangrun þar til tvö sýni með sólarhringsmillibili reynast neikvæð. 

Munu 22 lið af 30 taka þátt í NBA-deildinni er hún fer af stað á ný, en allir leikir verða spilaðir í Disney-garðinum í Flórída. Þau átta lið sem ekki áttu lengur möguleika á að komast í úrslitakeppnina sitja heima og bíða næsta tímabils.

Byrja lið að æfa í næstu viku, áður en þau halda til Flórída þar sem öll lið fara í sóttkví þar til deildin fer af stað. 

mbl.is