Kristófer yfirgefur KR

Kristófer Acox
Kristófer Acox ,mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur ákveðið að yfirgefa KR en hann greindi frá ákvörðun sinni á Instagram í dag. 

Körfuknattleiksdeild KR ítrekaði síðast fyrir nokkrum dögum að Kristófer væri einn þeirra sem væri samningsbundinn félaginu. 

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Kristófer undanfarið reynt að fá samningi sínum við KR rift á þeim grundvelli að ekki hafi verið staðið við hann að hálfu félagsins. 

Sjálfur segir hann á Instagram að ástæða þess að hann yfirgefi félagið sé sú að „ágreiningur sé milli hans og KR sem ekki náðist að leysa.“

Færsla Kristófers: 

 “Mér þykir það miður að þurfa að tilkynna brottför mína frá uppeldisfélaginu mínu KR. Ástæðan er ákveðinn ágreningur milli món og félagsins, sem því miður náðist ekki að leysa. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir þann tíma sem ég varði hjá KR og ég óska félaginu alls hins besta á komandi tímabili. Ekki er komið á hreint hvar ég mun spila á næstu leiktíð, en það mun væntanlega skýrast á næstu dögum. Hvar sem ég mun enda, er ég spenntur fyrir nýrri og krefjandi áskorun.”

Kristófer Acox varð Íslandsmeistari með KR þrjú ár í röð: 2017, 2018 og 2019. Hann var í liðinu á síðasta tímabili en tímabilið var flautað af vegna kórónuveirunnar. Hann lék í fjögur ár þar áður í háskólaboltanum í Bandaríkjunum með Furman. Erlendis hefur hann leikið í stuttan tíma með Star Hotshots á Filippseyjum og Denain Voltaire í Frakklandi. 

Miklar breytingar verða á leikmannahópi KR á milli tímabila. Jón Arnór Stefánsson er farinn í Val og Kristófer á leið frá félaginu. Á hinn bóginn hefur KR staðfest að Helgi Már Magnússon, Jakob Örn Sigurðarson og Björn Kristjánsson muni taka slaginn með liðinu í vetur. Þjálfaraskipti urðu í vor þegar Inga Þór Steinþórssyni var sagt upp og við tók Darri Freyr Atlason. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert