Óviðeigandi hegðun sem hefur liðist í fjölda ára

Fanney Lind Thomas í leik með Breiðabliki á síðasta ári.
Fanney Lind Thomas í leik með Breiðabliki á síðasta ári. mbl.is/Árni Sæberg

Fanney Lind Thomas, leikmaður körfuknattleiksliðs Breiðabliks, segir að óviðeigandi hegðun í garð kvenkynsleikmanna í meistaraflokki hafi liðist innan körfuboltahreyfingarinnar í fjölda ára.

Undanfarinn sólarhring hafa borist fréttir af dómara innan hreyfingarinnar sem hefur verið tekinn af dómaraskrá eftir að hann varð uppvís að því að senda leikmanni í efstu deild kvenna óviðeigandi skilaboð.

Hann hafði þá dæmt hjá viðkomandi leikmanni en dómarinn er á meðal reyndustu körfuknattleiksdómara landsins.

„22 ára gömul fékk ég þessi skilaboð frá þjálfara í deildinni,“ skrifar Fanney í færslu á Twitter en hún gaf mbl.is leyfi til þess að birta færsluna.

Fanney birtir þar skjáskot af samtali sínu við þjálfara í deildinni þegar hún var 22 ára gömul.

Mjög svo óviðeigandi frá rígfullorðnum giftum manni. Slík hegðun fjölmargra þjálfara sem ég veit um gagnvart ungum stúlkum í deildinni hefur liðist í öll þessi ár,“ bætir Fanney við.

mbl.is