Úrskurðaður í þriggja leikja bann

Dallas Morgan leikmaður Sindra er kominn í þriggja leikja bann fyrir að hafa slegið andstæðing í leik gegn Álftanesi í næstefstu deild karla í körfuknattleik. 

Aga- og úrskurðanefnd KKÍ tók málið fyrir og í úrskurði nefndarinnar segir að Morgan hafi slegið andstæðinginn þéttingsfast í andlitið fjarri þeim stað sem boltinn var og því hafi verið um ásetning að ræða. 

Sindri mætir Selfossi á Hornafirði í kvöld í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar og ljóst er að Morgan leikur ekkert í því einvígi en þar verða annaðhvort tveir eða þrír leikir. Í 8-liða úrslitum í kvöld mætast einnig Álftanes og Skallagrímur. 

mbl.is