Akureyringar safna liði

Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórs.
Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórs. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Eric Fongue, sem á að baki leiki með svissneska landsliðinu, mun leika með Þór frá Akureyri í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næsta keppnistímabili. 

Þórsarar eru greinilega á fullu að setja saman leikmannahópinn fyrir næsta tímabil því í gær var tilkynnt að félagið hefði samið við bandaríska bakvörðinn Jon­ath­an Lawt­on. 

Á heimasíðu Þórs segir meðal annars um Fongue: 

„Eric er 30 ára gamall og kemur frá Zürich í Sviss. Hann er 198 sentimetra hár og spilar stöðu framherja. Eric á nokkra leiki með svissneska landsliðinu og hefur meðal annars heimsótt Ísland vegna landsleiks Íslands og Sviss árið 2016. 

Eric hefur spilað allan sinn atvinnumannsferil í heimalandinu en var fjögur ár í háskóla í Bandaríkjunum og þar af lokaárið sitt í University of Alaska Fairbanks.“

Þórsar­ar enduðu í sjö­unda sæti úr­vals­deild­ar­inn­ar á nýliðinni leiktíð og töpuðu fyr­ir Þór frá Þor­láks­höfn í átta liða úr­slit­um úr­slita­keppn­inn­ar.

mbl.is