Lykilmaður meistaranna til Lettlands

Larry Thomas er farinn frá Þórsurum.
Larry Thomas er farinn frá Þórsurum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríski bakvörðurinn Larry Thomas hefur yfirgefið herbúðir Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn í körfuknattleik og samið við Ventspils í Lettlandi.

Ventspils hefur tíu sinnum orðið lettneskur meistari í körfubolta og ekki endað neðar en í þriðja sæti frá árinu 1996. Þá hefur liðið leikið í Meistaradeild Evrópu.

Thomas átti stóran þátt í Íslandsmeistaratitli Þórsara í vetur en hann skoraði 20 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. Hann hefur leikið með Þór frá Akureyri, Hamri og Breiðabliki hér á landi.

mbl.is