Morant öflugur gegn Golden State

Ja Morant hefur verið mjög öflugur með Memphis og skoraði …
Ja Morant hefur verið mjög öflugur með Memphis og skoraði 29 stig í nótt. Hér reynir Andrew Wiggins hjá Golden State Warriors að stöðva hann. AFP

Memphis Grizzlies lagði Golden State Warriors að velli í stórleik næturinnar í NBA-deildinni í körfuknattleik, 116:108.

Þetta eru tvö af fjórum efstu liðum Vesturdeildarinnar og Golden State er í öðru sæti þrátt fyrir tapið með 30 sigra í 40 leikjum og Memphis er í fjórða sæti með 29 sigra í 43 leikjum eftir að hafa unnið tíu leiki í röð.

Ja Morant skoraði 29 stig fyrir Memphis en hjá Golden State var Stephen Curry með þrefalda tvennu, 27 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar, og Klay Thompson kom næstur með 14 stig í sínum öðrum leik.

Phoenix er efst í Vesturdeildinni er nú eina liðið sem hefur tapað færri en tíu leikjum á tímabilinu og liðið vann góðan útisigur á Toronto Raptors í Kanada, 99:95. Jae Crowder skoraði 19 stig fyrir Phoenix en Og Anunaby skoraði 25 stig fyrir Toronto.

Chicago Bulls er með góða stöðu á toppi Austurdeildar og vann stórsigur á Detroit Pistons, 133:87. Chicago hefur unnið 27 leiki af 38. Nikola Vucevic skoraði 22 stig fyrir Chicago og DeMar DeRozan var með 20 stig og 12 fráköst.

Úrslitin í nótt:

Washington - Oklahoma City 122:118
Toronto - Phoenix 95:99
Memphis - Golden State 116:108
New Orleans - Minnesota 128:125
Chicago - Detroit 133:87
LA Clippers - Denver 87:85

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert