LeBron ætlar sér að spila með syninum

LeBron James varð meistari með Los Angeles Lakers árið 2020.
LeBron James varð meistari með Los Angeles Lakers árið 2020. AFP

Körfuknattleikskappinn LeBron James gæti yfirgefið Los Angeles Lakers þegar samningur hans við bandaríska félagið rennur út sumarið 2024.

Það er ESPN sem greinir frá þessu. LeBron er einn besti leikmaður sem spilað hefur í bandarísku NBA-deildinni en sonur hans LeBron James yngri, sem er 17 ára, er á meðal efnilegustu leikmanna bandaríska háskólaboltans í dag.

Bronny, eins og hann er jafnan kallaður, leikur með menntaskólaliði Sierre Canyon og er eftirsóttur af stærstu háskólum Bandaríkjanna. Hann útskrifast á næsta ári og gæti því leikið í NBA-deildinni tímabilið 2024-25. 

„LeBron er ánægður í Los Angeles og fjölskyldunni hans líður vel þar,“ sagði Brian Windhhorst, sérfræðingur ESPN um NBA-deildina, í samtali við Maxim.

„Hann hefur hins vegar áður gefið það út að hann ætli sér að spila með syni sínum áður en ferlinum lýkur og ef tækifærið býðst, utan Los Angeles, mun hann stökkva á það,“ bætti Windhorst við.

LeBron varð meistari með LA Lakers árið 2020 en hann varð einnig meistari með Miami Heat, 2012 og 2013, og Cleveland Cavaliers árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert