Snúið fyrsta verkefni en íslenska liðið alls óhrætt

Miðherjinn stóri og stæðilegi, Tryggvi Snær Hlinason, er íslenska liðinu …
Miðherjinn stóri og stæðilegi, Tryggvi Snær Hlinason, er íslenska liðinu gífurlega mikilvægur. mbl.is/Óttar Geirsson

Í kvöld bíður íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik ærið verkefni þegar liðið mætir einu sterkasta landsliði heims, liði Spánar, í Pamplona ytra. Um er að ræða fyrsta leik beggja liða í lokaumferð undankeppni HM 2023, sem mun fara fram á Filippseyjum, Japan og Indónesíu á næsta ári.

Lið Íslands tók með sér þrjá sigra úr 2. umferð undankeppninnar og er því með sjö stig í þriðja sæti L-riðils lokaumferðarinnar, líkt og Spánn og Ítalía. Í lokaumferð undankeppninnar mun íslenska liðið mæta Spáni, Úkraínu og Georgíu, heima og að heiman, en þrjú efstu liðin af sex komast á HM.

Íslenska karlaliðið hefur tvívegis leikið á EM, EuroBasket, en hefur aldrei tekið þátt í heimsmeistaramóti. Hefur liðið aldrei verið jafn nálægt því og nú. Fyrsta verkefnið í lokaumferð undankeppni HM er eins snúið og það verður, gegn tvöföldum heimsmeisturum og þreföldum Evrópumeisturum Spánverja. Þá hefur liðið þrisvar unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikum.

„Maður hefur séð til þeirra og við spiluðum náttúrlega við þá á EuroBasket í Berlín á sínum tíma. Þetta er búið að vera eitt besta landslið í heimi mörg síðustu ár þannig að ég held að við förum ekki í neitt mikið stærra verkefni en þetta og það er krefjandi hvað það varðar.

Maður kannski horfir til þess að þetta verði fyrst og síðast frábær undirbúningur fyrir Úkraínuleikinn, ef maður er alveg heiðarlegur. Að mæta Spáni á þeirra heimavelli er eins stórt verkefni og við komumst í,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, annar þjálfara karlaliðs Hattar í körfuknattleik, er Morgunblaðið bað hann að rýna í leik kvöldsins.

Ekki mikið um veikleika

Spurður hvort hann teldi spænska liðið búa yfir einhverjum sýnilegum veikleikum sagði hann: „Nei, ég verð að segja alveg eins og er að miðað við það sem maður hefur séð af þeim á síðustu árum þá eru þeir ekki margir.

Það er hægt að tala um að þeir hafi farið í gegnum ákveðna endurnýjun, þar sem þeir hafa misst góða og sterka pósta út úr þessu liði á síðustu árum, en þetta er bara það öflug körfuboltaþjóð að þeir eru með gríðarlega öflugt lið. Þeirra deild er sú besta í heimi þegar NBA-deildin er undanskilin. Svo er mikill styrkleiki að [Sergio] Scariolo er búinn að þjálfa þá í töluvert langan tíma.“

Ítalinn Scariolo hefur stýrt Spáni til allra þriggja Evrópumeistaratitla sinna og annars af heimsmeistaratitlunum sem liðið hefur unnið til. Þrátt fyrir að spænska liðið hafi, líkt og Einar Árni bendir á, gengið í gegnum nokkra endurnýjun undanfarin ár þar sem Gasol-bræðurnir ógnarsterku, Pau og Marc, hafa til að mynda hætt að spila, eru þrír liðsmanna þess, bræðurnir Willy og Juancho Hernángomez ásamt Usman Garuba, að spila í NBA-deildinni og flestir hinir í sterkustu deild Evrópu heima við á Spáni.

Förum ekki litlir í verkefnið

En gegn þetta sterku liði, hvað getur íslenska liðið gert til þess að eiga sem mesta möguleika í leik kvöldsins? „Ég held að það sé bara að byggja á því sem við höfum verið að gera. Við förum ekkert litlir í þetta verkefni því við erum búnir að sýna það í síðustu leikjum á móti sterkum þjóðum eins og Ítalíu að við getum gert vel í hröðum leik og erum náttúrlega mikið til að spila með fjóra bakverði í kringum Tryggva [Snæ Hlinason],“ sagði Einar Árni.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert