Úrskurðaður í fimm leikja bann

Pablo Bertone í oddaleiknum í síðasta mánuði.
Pablo Bertone í oddaleiknum í síðasta mánuði. mbl.is/Óttar Geirsson

Argentínski körfuknattleiksmaðurinn Pablo Bertone, leikmaður Vals, var í dag úrskurðaður í fimm leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ fyrir háttsemi sína í oddaleik liðsins gegn Tindastóli í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í síðasta mánuði.

„Með vísan til ákvæðis e-liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, Pablo Cesar Bertone, sæta fimm leikja banni vegna háttsemi sinnar í leik Vals og Tindastóls í úrslitaviðureign Subway-deildar karla, sem fram fór þann 18. maí 2023,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Ekki er farið nánar í saumana á því hvers vegna bann Bertone, sem er með ítalskt vegabréf, er svo langt.

Í 1. málsgrein 13. greinar reglugerðar um aga- og úrskurðarmál segir hins vegar:

„Ef einstaklingur gerist sekur um viljandi líkamsmeiðingar eða tilraun til slíks, eða aðra hættulega framkomu eða meiriháttar ósæmilega hegðun gagnvart dómurum eða starfsmönnum leiks þá, skal aga og úrskurðarnefnd dæma viðkomandi í að minnsta kosti fimm leikja bann.“

Bertone gerðist ekki sekur um viljandi líkamsmeiðingar eða tilraun til slíks á meðan á leiknum stóð enda snýr fimm leikja bannið að ósæmilegri hegðun gagnvart dómurum leiksins.

Fór inn í dómaraklefa

Hann hélt inn í klefa dómara leiksins að leik loknum og vildi ræða við þá, sem er harðbannað.

Í samtali við mbl.is sagði Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, að Bertone hafi ekki veist að dómurunum í þeim skilningi en að hann hafi gengist við því að það að fara inn í dómaraklefann hafi verið rangt af honum.

Bertone hafi síðan beðist afsökunar á framferði sínu í hita leiksins, auk þess sem Valur hafi beðist afsökunar.

Hannes benti auk þess á að öryggisgæslu hafi ekki verið ábótavant þar sem dómararnir hafi verið búnir að segja starfsmönnum hennar að þeir gætu farið, þar sem dómararnir voru komnir inn í sinn klefa.

Bertone hefur því næsta tímabili í fimm leikja banni.

mbl.is