Kolbrún fór á kostum og Ísland leikur um 5. sætið

Kolbrún María Ármannsdóttir í leik með Stjörnunni á síðasta tímabili.
Kolbrún María Ármannsdóttir í leik með Stjörnunni á síðasta tímabili. Arnþór Birkisson

Kolbrún María Ármannsdóttir átti hreint magnaðan leik þegar íslenska U16-ára landsliðið í körfuknattleik stúlkna vann frækinn sigur á Litháen, 64:62, í leik um 5. – 8. sæti B-deildar EM í Podgorica í Svartfjallalandi í dag.

Kolbrún María, sem leikur með Stjörnunni, nýliðum í úrvalsdeild kvenna, gerði sér lítið fyrir og skoraði 26 stig fyrir Ísland og tók auk þess 15 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Ísland var með yfirhöndina í fyrri hálfleik þar sem staðan að honum loknum var 37:30.

Í síðari hálfleik óx Litháen ásmegin og var allt í járnum allt til enda.

Þegar tvær sekúndur voru eftir á klukkunni var staðan 62:62. Kolbrún María steig þá upp og skoraði tveggja stiga körfu með stökkskoti.

Litháen hafði því tíma, þó naumur væri, til þess að fara í eina lokasókn. Hún varð hins vegar að engu þegar Ísold Sævarsdóttir, annar leikmaður Stjörnunnar og öflug frjálsíþróttakona hjá FH, stal boltanum af Litháa og tíminn rann út.

Þar með er ljóst að Ísland mætir Bretlandi í leiknum um fimmta sætið á mótinu klukkan 14 á morgun. Þessi lið voru saman í C-riðli, þar sem Bretar unnu leik liðanna, 65:54.

Íslensku stúlkurnar eiga því harma að hefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert