Kom inn á í uppbótartíma og skoraði þrennu

Rafa Mir átti magnaða innkomu.
Rafa Mir átti magnaða innkomu. AFP

Spánn er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitunum í knattspyrnu karla á Ólympíuleikunum í Tókýó með 5:2 sigri eftir framlengdan leik gegn Fílabeinsströndinni í fjórðungsúrslitunum í morgun.

Eins og úrslitin gefa til kynna var leikurinn afar fjörugur. Fílabeinsstrendingar tóku forystuna á 10. mínútu þegar Eric Bailly, varnarmaður Manchester United, náði góðu skoti í stöngina og inn eftir hornspyrnu Max-Alain Gradel.

Eftir hálftíma leik jafnaði Dani Olmo, leikmaður RB Leipzig, metin eftir mistök í vörn Fílabeinsstrendinga. Juan Miranda renndi boltanum fyrir markið og Olmo skoraði af örstuttu færi, 1:1.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og allt þar til komið var fram í uppbótartíma venjulegs leiktíma. Fílabeinsstrendingar tóku þá forystuna öðru sinni þegar Gradel kom boltanum yfir línuna af stuttu færi, 1:2.

Markið á fyrstu mínútu uppbótartíma og Fílabeinsstrendingar virtust vera að tryggja sér sigurinn.

Allt kom þó fyrir ekki og Spánverjar skiptu Rafa Mir, framherja Wolverhampton Wanderers, inn á. Hann var búinn að vera inni á vellinum í um mínútu þegar hann jafnaði metin á ögurstundu, á þriðju mínútu uppbótartíma, og það aftur aftur eftir mistök í vörn Fílabeinsstrendinga, 2:2.

Því þurfti að grípa til framlengingar þar sem Mikel Oyarzabal, vængmaður Real Sociedad, skoraði úr vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik framlengingarinnar og kom Spánverjum þar með yfir í fyrsta sinn í leiknum.

Rafa Mir bætti við fjórða marki Spánverja og öðru marki sínu á 117. mínútu eftir sendingu frá Olmo og fullkomnaði svo þrennu sína í uppbótartíma framlengingarinnar eftir sendingu frá Oyarzabal.

Lokatölur 5:2 í stórskemmtilegum leik og Spánn þar með kominn í undanúrslitin, þar sem liðið mætir annaðhvort heimamönnum í Japan eða Nýja-Sjálandi, sem etja nú kappi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert