Í fyrsta sinn í yfir hundrað ár sem gullinu er deilt

Mutaz Essa Barshim og Gianmarco Tamberi fagna gullverðlaunum sínum í …
Mutaz Essa Barshim og Gianmarco Tamberi fagna gullverðlaunum sínum í sameiningu. AFP

Katarinn Murtaz Essa Barshim og Ítalinn Gianmarco Tamberi skráðu sig í sögubækur Ólympíuleikanna í dag þegar þeir tóku sameiginlega ákvörðun um að deila gullverðlaunum í hástökki karla.

Gulli hefur ekki verið deilt í frjálsri íþróttagrein á leikunum í meira en hundrað ár, eða síðan það var gert á leikunum í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 1912, fyrir 109 árum.

Barshim og Tamberi bauðst að keppa innbyrðis eftir að þeim mistókst báðum að jafna ólympíumetið, sem er 2,39 metrar, í þremur tilraunum, en þeir voru hnífjafnir eftir að hafa stokkið 2,37 og þurft til þess jafnmargar tilraunir.

Því áttu þeir báðir inni nokkrar tilraunir til þess að skáka hvor öðrum en eftir að hafa rætt málin aðeins í kjölfar erfiðrar tveggja klukkustunda keppni féllust þeir á að deila gullinu, sem leiddi til gífurlegra fagnaðarláta viðstaddra á leikvanginum.

mbl.is