Allt á uppleið hjá Guðbjörgu

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í þriðja sæti í 60 metra …
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í þriðja sæti í 60 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum. mbl.is/Eggert

„Ég er mjög sátt með mína frammistöðu á þessu móti,“ sagði hin 16 ára gamla Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir frjálsíþróttakona í samtali við mbl.is í Laugardalshöllinni í dag en Guðbjörg, sem er ríkjandi Evrópumeistari U18 ára í 100 metra hlaupi, endaði í þriðja sæti í 60 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum í dag á tímanum 7,51 sekúndu sem er hennar besti tími í greininni. Þá var hún hluti af íslensku boðshlaupssveitinni sem vann til gullverðlauna í 4x200 metra hlaupi kvenna.

„Þetta er allt að smella hjá mér í 60 metrunum en það er enn þá mikið sem ég get lagað. Ég er búin að vera mjög stöðug á æfingum og störtin hjá mér hafa verið góð og núna þarf ég bara að yfirfæra þetta í keppnirnar sjálfar. Mér tókst að jafna minn besta árangur í 60 metra hlaupinu í undanúrslitunum og svo bætti ég hann í úrslitahlaupinu þannig að þetta er allt á uppleið hjá mér.“

Íslenska boðshlaupssveitin í 4x200 metra hlaupi gerði sér lítið fyrir og skákaði stöllum sínum frá Bandaríkjunum í hörkukeppni en íslenska liðið hljóp á tímanum 1:37,72 en næst á dagskrá hjá Evrópumeistaranum er boðhlaup á Norðurlandamótinu sem fram fer í Bærum í Noregi í næsta mánuði.

Guðbjörg Jóna á fleygiferð í 60 metra hlaupinu í Laugardalshöllinni …
Guðbjörg Jóna á fleygiferð í 60 metra hlaupinu í Laugardalshöllinni í dag. Ljósmynd/Árni Sæberg

„Það var geggjað að fá að hlaupa á móti þessum stelpum. Við höfum aldrei fengið tækifæri til þess áður að hlaupa gegn bandarískri boðshlaupssveit og við erum að reyna að búa til góðar íslenskar boðhlaupssveitir og þetta er allt á réttri leið hjá okkur. Ég tek þátt í boðhlaupi á Norðurlandamótinu um næstu helgi en svo er ég aðallega að einbeita mér að sumrinu. Ég er að æfa af fullum krafti þessa dagana, ég missti af hluta úr undirbúningstímabilinu, vegna Ólympíuleika ungmenna í Argentínu og er bara að einbeita mér að því að koma mér í mitt besta stand.“

Markmiðin hjá þessari öflugu frjálsíþróttakonu eru skýr fyrir næstu mánuði en hún ætlar að halda áfram að leggja áherslu á 60 og 200 metra hlaup.

„Stefnan er auðvitað sett á að bæta Íslandsmetið í 60 metra hlaupi en ef það kemur ekki þá er það bara þannig. Ég er líka að einbeita mér að 200 metra hlaupinu og að reyna að ná Íslandsmetinu þar en það sem ég er að leggja mesta áherslu á þessa stundina er að hlaupa hratt í 200 metrunum og bæta mig enn þá frekar í 60 metrunum,“ sagði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert