Fimm náðu lágmörkum

Sundkeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalslaug um helgina.
Sundkeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalslaug um helgina. ÍBR/Kjartan Einarsson

Sundkeppni Reykjavíkurleikanna fór vel af stað í Laugardalslaug í kvöld en fimm sundmenn syntu undir lágmörkum fyrir stórmót. 

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH synti undir lágmarkinu í 50 m skriðsundi fyrir Evrópumótið í 50 metra laug. Lágmarkið er 26,23 sekúndur en Ingibjörg synti á 26,21 sek.

Þá náðu þau Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB, Freyja Birkisdóttir úr Breiðabliki, Veigar Hrafn Sigþórsson úr ÍRB og Alexander Logi Jónsson úr ÍRB öll lágmörkum á NÆM, Norðurlandameistaramót Æskunnar. Eva Margrét synti 400 m fjórsund á tímanum 5:17,00 en lágmarkið er 5:21,74. Freyja synti 800 m skriðsund á tímanum 9:24,77 en lágmarkið er 9:51,88. Veigar Hrafn synti 400 fjórsund á 5:00,96 og Alexander Logi á 5:00,92. Lágmarkið er 5:02,86.

Rúmlega 300 keppendur taka þátt í mótinu, þar af rúmlega 100 erlendir. Keppni heldur áfram í fyrramálið klukkan 9:15 en þá verða syntar undanrásir í 10 greinum. Klukkan 15:30-16:30 eru svo úrslitasund í 14 greinum. Mótinu lýkur á sunnudag. Á iceswim.is má finna nánari dagskrá og keppendalista.

mbl.is