Sló aftur heimsmet á Reykjavíkurleikunum

Verðlaunahafar í kraftlyftingakeppni kvenna á Reykjavíkurleikunum. Frá vinstri Arna Ösp …
Verðlaunahafar í kraftlyftingakeppni kvenna á Reykjavíkurleikunum. Frá vinstri Arna Ösp Gunnarsdóttir (2. sæti), Kimberly Walford (1. sæti), Kristín Þórhallsdóttir (3. sæti). Þóra Hrönn Njálsdóttir

Kraftlyftingakeppni Reykjavíkurleikanna fór fram í Laugardalshöll í dag. Kimberly Walford setti heimsmet í réttstöðulyftu í -72 kg flokki í keppninni. Kimberly setti einnig heimsmet þegar hún kom síðast á Reykjavíkurleikanna fyrir þremur árum og hefur það staðið síðan. Nýja heimsmetið er 244 kg, einu kílói meira en það sem hún setti árið 2017. 

Keppt var í stigakeppni með svokölluðum IPF sem er ákveðin formúla sem byggir á líkamsþyngd keppenda og heildarþyngd sem lyft er. Árangur Kimberly tryggði henni sigur í stigakeppninni í kvennaflokki en í öðru sæti var Arna Ösp Gunnarsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Mosfellsbæjar og í því þriðja Kristín Þórhallsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akraness.

Í karlaflokki sigraði margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi, Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Í öðru sæti var Friðbjörn Bragi Hlynsson úr Kraftlyftingafélagi Mosfellsbæjar og í því þriðja Ingvi Örn Friðriksson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Evrópumeistarinn í +120 kg flokki, Siim Rast, sem einnig var á meðal keppenda var nokkuð frá sínu besta í dag og endaði í fjórða sæti.

Verðlaunahafar í kraftlyftingakeppni karla á Reykjavíkurleikunum. Frá vinstri Friðbjörn Bragi …
Verðlaunahafar í kraftlyftingakeppni karla á Reykjavíkurleikunum. Frá vinstri Friðbjörn Bragi Hlynsson (2. sæti), Viktor Samúelsson (1. sæti), Ingvi Örn Friðriksson (3. sæti). Þóra Hrönn Njálsdóttir
mbl.is