“Vonandi gefur RIG tóninn fyrir árið”

Júlían J. K. Jóhannsson keppir á Reykjavíkurleikunum.
Júlían J. K. Jóhannsson keppir á Reykjavíkurleikunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Júlían J. K. Jóhannsson kraftlyftingamaður ætlar að eigin sögn að mæta með læti á Reykjavíkurleikana í ár. Óvíst var hvort Júlían gæti tekið þátt þar sem hann varð fyrir meiðslum í lok árs þegar hann tognaði í brjóstvöðva og aftan í læri.  

“Það má segja að það sé búið að ganga á ýmsu síðata árið, ég hef aldrei keppt jafn lítið, en ég æfði allt árið og æfði nokkuð vel, þó við misgóðar og slæmar aðstæður sem hefur líklega orsakað meiðslin. Að æfa í kaldri geymslu, bílskúr eða jafnvel ekki með slétt undirlag getur haft áhrif.”

Júlían keppir í þríþraut sem er hnébeygja, bekkpressa og réttstöðulyfta, keppt er án útbúnaðar, semsagt klassískar kraftlyftingar. 

Árið 2021 leggst vel í Júlían, stefnan er sett á EM og HM á árinu, bæði mótin áttu að fara fram í fyrra, en ættu að fara fram í ár. 

„Vonandi gefa Reykjavíkurleikarnir tóninn fyrir árið, það er ánægjulegt að geta keppt og skemmtilegt að keyra á þetta” segir Júlían. Kraftlyftingakeppnin fer fram á sunnudaginn klukkan 15.00, en keppninni verður streymt og svo verður hún sýnd á RÚV þriðjudaginn 2. febrúar. 

Frekari upplýsingar um Reykjavíkurleikana má finna á rig.is

mbl.is