Þetta getur komið fyrir

Kristján Viggó Sigfinnsson stekkur í Laugardalnum í dag.
Kristján Viggó Sigfinnsson stekkur í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er eiginlega ekki sáttur en þetta getur komið fyrir,“ sagði Kristján Viggó Sig­finns­son hástökkvari í samtali við mbl.is. Kristján stökk hæst 2,04 metra á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöllinni í dag, en það er nokkuð frá hans besta árangri. 

Kristján er aðeins 17 ára gamall en er þegar orðinn næstbesti hástökkvari landsins innanhúss frá upphafi eftir að hann fór yfir 2,15 metra fyrir ári. Íslandsmethafinn Einar Karl Hjartarson er sá eini sem hefur gert betur en hann stökk 2,28 metra árið 2001.

Aðeins tveir keppendur mættu til leiks í hástökkið í dag en Benja­mín Jó­hann Johnsen stök 2,01 metra og varð annar. Kristján segir það hafa spilað inn í. „Keppnin var ekki nægilega mikil í dag. Oftast á svona mótum koma keppendur frá útlöndum sem veita manni harða keppni en það vantaði í dag. Við vorum svo bara tveir. Það hefði verið betra og skemmtilegra ef við hefðum verið fleiri og svo vantaði líka áhorfendur.“

Kristján segir áhorfendur skipta miklu máli í grein eins og hástökki þar sem keppendur eru oftast klappaðir í gang rétt fyrir hvert stökk. „Það er erfiðara að fá ekki stuðning frá áhorfendum. Það skemmtilegasta er að láta klappa sig í gang og það var ekki í dag, en ég hefði samt átt að gera betur, ég hefði gert það ef ég hefði stillt hausinn rétt.“

Kristján ætlaði að freista þess að tryggja sig inn á HM U20 ára í dag, en það gekk ekki eftir. „Ég var á innanfélagsmóti um daginn þar sem ég fór yfir 2,13 sem er nálægt lágmarkinu. Ég reyndi svo við 2,16 sem er lágmarkið en það gekk ekki. Ég ætlaði mér það svo aftur í dag en það gekk ekki heldur. Það er hellingur af mótum fram undan sem ég er kominn inn á og vonandi fara þau fram og ég get keppt á þeim, annars er óvíst hvernig árið verður,“ sagði Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert