Sama lánshæfismat og fyrir ári

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, segist telja að nýtt lánshæfismat matsfyrirtækisins Moody's muni ekki hafa mikil áhrif, því markaðsaðilar hafi þegar gert ráð fyrir þessum breytingum.

„Ég tel að þessar breytingar muni ekki hafa mikil áhrif og að markaðsaðilar hafi þegar gert ráð fyrir þessu. Atburðarásin síðustu tólf mánuði er hins vegar óheppileg, þar sem lánshæfismat okkar er fyrst hækkað mjög mikið. Síðan hefur matið verið tekið niður og við búið við það að vera með neikvæðar horfur eða lækkun á lánshæfismati í langan tíma. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum nú með sama lánshæfismat og fyrir tólf mánuðum síðan, sem er ágætis lánshæfismat og mun ekki hamla okkar rekstri,“ sagði Hreiðar Már.

Hann sagðist ekki eiga von á því að þessi breyting á matinu hefði áhrif á skuldatryggingarálag bankanna, en tíminn yrði að leiða það í ljós. „Það er í sjálfu sér staðfest í þessu mati að eignastaða okkar er góð, eignadreifing er góð og lausafjárstaða mjög sterk, sem er það sem við höfum haldið fram á undanförnum misserum,“ sagði Hreiðar Már.

Jafn sterkt og fyrir ári

Halldór Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir að lánshæfismat Landsbankans sé traust og gott. Það sé það sama og fyrir tólf mánuðum, áður en Moody's hóf að gera þessar breytingar á lánshæfismati bankanna. Hann sé undrandi á vinnubrögðum matsfyrirtækisins hvað þetta varði. „Almennt lánshæfismat Landsbankans er núna nákvæmlega það sama og það var áður en öll þessi hringekja byrjaði hjá Moody's. Lánshæfismatið A2 er sterkt mat í alþjóðlegu tilliti og sambærilegt því sem við höfðum fyrir rétt rúmu ári áður en Moody's hóf að breyta aðferðafræði sinni með skyndilegri mjög mikilli hækkun matsins, síðan lækkun til baka og nú í þriðja sinn á stuttum tíma,“ sagði Halldór.

Hann sagði að niðurstaðan væri sú ef horft væri til sögu lánshæfismats bankans að það hefði styrkst jafnt og þétt í gegnum árin og væri að styrkjast nú ef litið væri framhjá þessum sviptingum síðastliðið ár, sem reyndar snertu fjölmarga banka í heiminum. „Aðalatriðið í mati á Landsbankanum er að hann er með hvað styrkustu eiginfjár- og lausafjárstöðu allra banka í Evrópu og fjárhagslegur styrkur bankans er því mikill. Í því sambandi er rétt að benda á að lánshæfismat fyrir skammtímaskuldbindingar bankans er það hæsta sem Moody's gefur,“ sagði Halldór einnig.

Gott að óvissan er að baki

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir að það sé gott að þessi óvissa varðandi lánshæfismatið sé að baki og nú sé hægt að einbeita sér að því að vinna út frá þessum fosendum. Öll óvissa sé að slæm og þeir séu afar ósáttir með þá miklu hreyfingu sem hafi verið á þessum einkunnum Moody's. Fyrst hafi lánshæfismatið hækkað mikið og síðan farið niður aftur, sem sé óheppilegt.

„Við erum sáttir við sumt af ábendingum sem koma fram í þessu lánshæfismati Moody's. Þeir staðfesta að lausafjárstaða okkar er sterk og að við getum staðið af okkur veruleg áföll. Við erum ánægðir með það,“ sagði Lárus.

Hann sagði að þetta flökt á lánshæfiseinkunninni hefði verið erfitt. Það hefði betur verið heima setið en af stað farið. Nú væri einkunnin hins vegar komin nokkurn veginn á þann stað sem hún hefði verið á áður og hægt að vinna út frá þeim forsendum. „Það er fínt að þessari óvissu er lokið. Við höldum áfram að vinna og tökum til athugunar þær athugasemdir sem settar eru fram í matinu,“ sagði Lárus ennfremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK