Íslendingar öfundsverðir

mbl.is/G. Rúnar

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) segir í nýrri umfjöllun, að íslenska hagkerfið sé á erfiðum tímamótum  eftir langt vaxtarskeið. Sjóðurinn spáir því að verg landsframleiðsla dragist saman um 0,3% á þessu ári og einkaneysla um 3,2% og viðskiptahallinn verði 9,1%.

IMF segir að mikil óvissa ríki um þróunina í náinni framtíð og talsverð hætta sé á niðursveiflu en til langs tíma sé útlitið gott og Íslendingar séu jafnvel öfundsverðir í ljósi þess að þar sé traust stjórnsýsla, stöðugar stofnanir, opnir og  sveigjanlegir markaðir, miklar og vel nýttar náttúruauðlindir og einnig hafi stjórnvöldum oftast tekist vel að bregðast við breyttum aðstæðum. 

Sjóðurinn segir, að íslensk stjórnvöld þurfi að tryggja að umskiptin verði sem sársaukaminnst og draga úr áhættu. Stjórnendur IMF segjast fagna þeim aðgerðum, sem gripið hafi verið til, svo sem að gera gjaldeyrisskiptasamninga við norrænu seðlabankana, halda fast um taumana í peningamálum og auka gjaldeyrisforðann.

Í umfjöllun sjóðsins kemur fram það mat, að raungengi krónunnar sé undir jafnvægisgengi. Frekari gengislækkun gæti aukið verðbólguþrýsting, dregið úr kaupmætti heimilanna og valdið fyrirtækjum erfiðleikum. Þess vegna sé ekkert svigrúm fyrir stjórnvöld að lækka vexti fyrr en búið sé að koma böndum á verðbólgu. 

Þá eru stjórnvöld hvött til að standa nú þegar við fyrirheit um að breyta Íbúðarlánasjóði en slíkt sé mikilvægt til að tryggja virkni peningamálastefnunnar.  

Ekki var einhugur innan IMP um hvert beri að stefna í ríkisfjármálum. Meirihluti stjórnenda sjóðsins taldi að það myndi styðja við starf íslenska seðlabankans að stemma enn frekar stigu við ríkisútgjöldum. En nokkrir stjórnendur bentu á hættuna á samdrætti og töldu svigrúm fyrir stjórnvöld að beita ríkisfjármálum til að mýkja lendinguna.

Stjórnvöld eru hvött til aðgerða til að draga úr áhættu í bankastarfsemi. Þá eru þau einnig hvött til að grípa til ráðstafanna til þess að auka eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu bankanna. Einnig mæla stjórnendur IMF með því að gagnsæi verði aukið í atvinnulífinu og kröfur um upplýsingaskyldu fyrirtækja hertar og þeim fylgt betur eftir. 
 
Þá fagna stjórnendur sjóðsins þeim framförum, sem orðið hafa í þá átt að efla aðgerðarammann til þess að koma í veg fyrir, eða leysa úr, hættuástandi en mæla með því að rammarnir, sem eru til staðar, verði samþættir í einn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK