Svipaður aðdragandi en ólíkt framhald

Reuters
Staðan  hér á landi fyrir bankahrunið í byrjun októbermánaðar á síðasta ári var á vissum sviðum svipuð og á Írlandi. Þó verður að segjast að hún hafi verið nokkuð uggvænlegri hér, enda hefur komið á daginn að Írar hafa ekki komið eins illa út úr þeim hremmingum sem riðið hafa yfir og Íslendingar, þó vandi þeirra sé vissulega einnig mikill. Stærstur hluti fjármálakerfisins á Írlandi er þó ekki hruninn. Ætla má að sú staðreynd að Írar höfðu seðlabanka Evrópu sem bakhjarl hafi breytt miklu fyrir þá.

Mikil þensla

Það sem Ísland og Írland áttu sameiginlegt fyrir hrunið í október var í fyrsta lagi hið augljósa, bæði löndin eru eyjar í Evrópu. Þó Írland sé minna að flatarmáli búa þar töluvert fleiri en hér, eða rúmlega fjórar milljónir manna. Í báðum löndunum hefur hagvöxtur verið mikill á umliðnum árum. Þá hækkaði fasteignaverð mikið á Írlandi eins og á Íslandi allt fram á síðustu misseri, svo mikið reyndar að í báðum tilvikum var um bólu að ræða. Fjármálakerfi beggja landanna hafa einnig vaxið mikið og voru orðin hlutfallslega mjög stór með tilliti til landsframleiðslunnar í samanburði við önnur lönd. Annað sem nefna má er að í báðum löndunum var uppgangurinn það mikill að flytja þurfti inn vinnuafl frá útlöndum í stórum stíl til að anna eftirspurninni á vinnumarkaðinum.

Lánveitandi til þrautavara

En ekki var allt eins á Íslandi og Írlandi. Þó írska fjármálakerfið hafi vaxið mikið eins og það íslenska þá varð það þó aldrei stærra en helmingurinn af því íslenska, sem hlutfall af landsframleiðslunni í hvoru landi fyrir sig, sem þó þótti engu að síður nóg. Þá skiptir einnig máli að Írar eru í Evrópusambandinu og í evrópska myntsamstarfinu. Þeir höfðu því aðgang að evrópska seðlabankanum sem svonefndum lánveitanda til þrautavara í sinni heimamynt, evrunni. Íslendingar eru hins vegar með sína krónu. Þetta gerði að verkum að lausafjárvandi írskra banka varð ekki eins stórt vandamál og þeirra íslensku, sem varð þeim meðal annars að falli. Írsk heimili og fyrirtæki hafa því ekki þurft að takast á við gjaldeyriskreppu, háa vexti og mikla verðbólgu. Vandinn hjá Írum birtist hins vegar með öðrum hætti. Þannig hefur það til að mynda valdið írskum útflytjendum erfiðleikum hvað evran er sterk gagnvart breska pundinu, en stór hluti af útflutningi þeirra fer einmitt til Bretlands.

Vandinn ekki yfirstaðinn

Eftir fall bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers í septembermánuði síðastliðnum var ljóst að mikil fjármálakreppa var í uppsiglingu í heiminum, þó svo að ýmis merki þar um hefðu komið fram töluvert fyrr. Írsk stjórnvöld brugðust við með því að lýsa því yfir að þau myndu tryggja innistæður í sex þarlendum bönkum. Síðar bætti írska ríkisstjórnin erlendum bönkum við, sem eru með umtalsverða starfsemi í landinu. Írar riðu þarna á vaðið í viðbrögðum við kreppunni og hafa fleiri farið sömu leið og þeir.

Í desembermánuði síðastliðnum kynntu írsk stjórnvöld svo að þau myndu verja allt að 10 milljörðum evra í neyðaraðstoð við innlendu bankana, sem innspýtingu á eigin fé.

Þessar aðgerðir írskra stjórnvalda dugðu ekki til þess að forða einum af stóru írsku bönkunum frá falli. Í síðasta mánuði var þriðji stærsti banki Írlands, Anglo Irish bankinn, þjóðnýttur. Var talið að nýtt eigið fé frá stjórnvöldum upp á 1,5 milljarða evra myndi ekki duga til að endurvekja traust á bankanum, en það hafði dvínað mjög vegna spillingar og óstjórnar ýmiss konar í starfsemi bankans.

Skuldatryggingarálag á írska ríkið er með því hæsta á evrusvæðinu og hefur hækkað mikið að undanförnu. Það hefur aukið á vandann í landinu. Mikill þrýstingur er á írsku ríkisstjórnina að grípa til harðra aðgerða til að taka á miklum halla í ríkisfjármálum og hefur ýmislegt komið þar til skoðunar og reyndar framkvæmda einnig. Að sögn írskra vefmiðla óttast ýmsir að verði ekki snúið af þeirri braut sem efnahagslífið er á sé hætta á því að lánshæfismatsfyrirtækin lækki lánshæfiseinkunnir ríkisins, sem myndi auka vandann enn frekar og gera lántökur enn dýrari en þær eru.

Írsk stjórnvöld eru því enn að kljást við mikinn vanda en fjármálakerfið í landinu er engu að síður fullu starfhæft og hefur verið það allar götur frá því fjármálakreppan hófst.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir