Hagstofan hækkar hagvaxtarspá

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar mun landsframleiðsla á þessu ári aukast um 2,5% á þessu ári, um 3,1% á næsta ári og um 3% árin 2013 og 2014.

Í þjóðhagsspá, sem Hagstofan sendi frá sér í apríl, var gert ráð fyrir 2,3% hagvexti á þessu ári og 2,9% vexti á næsta ári.

Nýja spáin er einnig heldur hærri en síðustu spár Seðlabankans, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Seðlabankinn spáði því í apríl að hagvöxtur yrði 2,3% á þessu ári og 2,9% á því næsta. OECD spáði því í lok maí, að hagvöxtur verði  2,2% á þessu ári og 2,9% á því næsta og AGS spáði í apríl 2,3% hagvexti í ár og 2,9% á því næsta.

Samkvæmt nýju spánni frá Hagstofunni munu einkaneysla og fjárfesting aukast þegar á þessu ári og næstu ár ef spáin gengur eftir. Samneysla dregst aftur á móti saman um 2,6% á árinu en tekur við sér að nýju árið 2014.

Í spánni segir að vöxtur landsframleiðslu á spátímabilinu verði knúinn áfram af aukinni einkaneyslu og fjárfestingu enda þótt samneysla dragist saman nú og á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir að gengi krónunnar styrkist mikið á næstu árum og það stuðli áfram að afgangi í vöru- og þjónustuviðskiptum.

Hagstofan segir, að verðbólga á fyrri hluta þessa árs hafi verið nokkru meiri en áður var reiknað með og laun hækkað meira og fyrr en áður var spáð. Verðbólga verði því hærri 2011 og 2012 en gert var ráð fyrir í fyrri spám en verði eftir það í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Reiknað er með að atvinnuleysi verði áfram nokkuð hátt en lækki stöðugt með auknum hagvexti.

Hagstofan segir, að einkaneyslan virðist hafa verið í miklum vexti á öðrum ársfjórðungi þessa árs en vöxturinn verði varla jafn mikill á seinni helmingi ársins. Mikil örvun, sem felist í útgreiðslu viðbótarlífeyris, sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu og nýgerðum kjarasamningum styðji við vöxt einkaneyslu til skamms tíma.

Fjölgun á vanskilaskrá bendi hins vegar til greiðsluvanda og ekki sé vitað hvort aðlögun skulda heimilanna leiði til meiri eða minni einkaneyslu eftir að greiðslufrestunum lýkur.

Hagspá Hagstofunnar 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK