Gjaldeyrisútboð hjá Seðlabankanum

mbl.is/Ernir

Krónukaupaútboð og tvö útboð um kaup á evrum fóru fram í dag. Að sögn Seðlabanka Íslands bárust alls 66 tilboð útboðið um kaup á evrum að fjárhæð 61,3 milljónir evra og var tilboðum að fjárhæð 38,6 milljónum evra tekið. Í krónukaupaútboðið bárust alls 39 tilboð að fjárhæð 25,3 milljarða kr. og var tilboðum að fjárhæð 9,1 milljarða tekið.

Útboðsverðið í evruútboðinu var ákveðið með þeim hætti að öll samþykkt tilboð voru tekin á sama verði (e. single price), sem var ákvarðað 238,8 kr. fyrir hverja evru.

Fram kemur í tilkynningu að sem greiðslu fyrir gjaldeyrinn í ríkisverðbréfaleiðinni fái fjárfestar afhent verðtryggð ríkisverðbréf RIKS 33 0321. Samtals hafi verið seld bréf í flokknum fyrir 3,0 milljarða króna að nafnvirði.

Sem greiðslu fyrir gjaldeyrinn í fjárfestingarleiðinni fái fjárfestar íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi. Samtals hafi verið keyptar evrur að andvirði 6,1 milljarð króna í útboðinu.

Í krónuútboðinu var útboðsverðið var ákveðið með þeim hætti að öll samþykkt tilboð voru tekin á sama verði (e. single price), sem var ákvarðað 239 kr. fyrir hverja evru.

Fram kemur í tilkynningu frá SÍ að 17. apríl sl. hafi bankinn boðist til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321. Jafnframt hafi Seðlabanki Íslands kallað eftir tilboðum frá aðilum sem vildu selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri.

Útboðin eru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.

„Kaupendur ríkisverðbréfanna hafa að 91% verið lífeyrissjóðir og aðrir aðilar hafa keypt 9%. Undirliggjandi fjárfestingar fjárfestingarleiðarinnar skiptast með þeim hætti að hlutabréf hafa verið 60% kaupanna, skuldabréf 29%, fasteignir 10% og kaup í verðbréfasjóðum 1%. Þátttaka í fjárfestingarleiðinni með svonefndar aflandskrónur hefur verið hverfandi. Fjárfestingar í fasteignum eru í flestum tilvikum smáar og framkvæmdar af íslenskum einstaklingum sem búa erlendis og/eða hyggja á heimflutning. Stærstu fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum eru erlendra móðurfélaga innlendra félaga. Ennfremur er nokkuð um fjárfestingar erlendra aðila í nýstofnuðum hlutafélögum. Samanlagðar fjárfestingar á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar nema 211 milljónum evra,“ segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir