„Gera allt til að verja evrusvæðið“

François Hollande og Angela Merkel segjast ætla að gera allt …
François Hollande og Angela Merkel segjast ætla að gera allt til að styðja við evruna AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og François Hollande, forseti Frakklands, segjast ætla að „gera allt til að verja evrusvæðið“ að því er fram kom í sameiginlegri yfirlýsingu frá þjóðarleiðtogunum. Sagði einnig í henni að „Þýskaland og Frakkland eru mjög skuldbundin því að hafa heilsteypt evrusvæði“. Þau taka því í svipaðan streng og seðlabankastjóri Evrópu, Mario Draghi, sem sagði í gær að seðlabankinn myndi aðstoða evruna eftir fremsta megni.

Merkel og Hollande héldu í dag símafund þar sem skuldamálefni Evrópu voru rædd og þá sérstaklega staða Spánar. Hollande hafði fyrr í vikunni sagt að hann vildi að þeim umbótum sem samþykktar hefðu verið af ráðamönnum Evrópusambandsins í síðasta mánuði yrði hraðað og þær kæmu til framkvæmda sem fyrst. Hafði þar verið ákveðið hvernig evrópski björgunarsjóðurinn gæti t.a.m. aðstoðað ákveðna banka með endurfjármögnun beint í stað þess að lána til ríkisstjórna sem svo útdeildu til bankanna.

Í yfirlýsingu frá ríkisstjórn Spánar í dag kom fram að neyðaraðstoð væri útilokuð, þrátt fyrir miklar vangaveltur markaðarins um slíkt eða utanaðkomandi aðstoð. Hagfræðingar hafa aftur á móti varað við að staðan á Spáni sé mjög veik og ekki þurfi mikið út af að bregða til að 100 milljarða lán Evrópuríkja til Spánar dugi ekki til að koma í veg fyrir hrun. Atvinnuleysi þarlendis hefur t.d. aukist upp á síðkastið og er núna yfir fjórðungur á atvinnuleysisskrá á Spáni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK