Ikea stefnir á hótelrekstur

Ikea ætlar sér inn á hótelmarkaðinn í Evrópu
Ikea ætlar sér inn á hótelmarkaðinn í Evrópu AFP

Sænski húsgagnaframleiðandinn Ikea skoðar um þessar mundir að fara inn á lággjalda hótelmarkaðinn í Evrópu með því að opna 100 slíka gististaði víðsvegar um álfuna. Hótelin munu þó ekki bera nafn keðjunnar og verða rekin af þekktum hótelrekstraraðila, að því er fram kemur á fréttavef CNN. 

„Við munum tilkynna á næstu vikum hvar fyrsta lággjalda hótelið verður í Þýskalandi og við erum í viðræðum við rekstraraðila um að hrinda í framkvæmd áætlunum okkar“ sagði Harald Müller, yfirmaður hjá fasteignadeild Inter Ikea, sem er móðurfélag samstæðunnar og á réttinn að Ikea vörumerkinu.

Til að byrja með mun vera horft til svæða þar sem Ikea er nú þegar virkt á fasteignamarkaði, svo sem Hollands, Póllands og Bretlands, en einnig til nýrra markaða eins og Þýskalands. Rekstur lággjalda hótela er ört vaxandi í Evrópu, en þá er boðið upp á nýtískuleg herbergi á lágu verði. Einn stærsti aðilinn í Evrópu á þessu markaði í dag er þýska félagið Motel One sem á 39 hótel í Þýskalandi með samtals 8500 herbergjum.

Þetta nýjasta útspil tengist fjárfestingum fasteignadeildar samstæðunnar sem virðist ætla sér stóra hluti á næstunni og er þegar með fjölmörg verkefni sem eru komin í framkvæmd eða eru í undirbúningsvinnu. Sem dæmi hefur þegar verið hafist handa við að byggja 1200 íbúðir á svæðinu umhverfis ólympíusvæðið í London og er einnig ætlunin að byggja fjölmargar námsmannaíbúðir um Evrópu á næstu árum. Félagið hefur einnig fjárfest í verslunarmiðstöðvum og er virkt á fjármálamarkaði.

Nýlega gaf móðurfélag Ikea upp hversu mikið vörumerki félagsins væri metið á, en hingað til hefur mikil leynd hvílt yfir öllum fjármálaupplýsingum tengdum félaginu. Var það metið á 9 milljarða evra og varð þar með eitt af dýrari merkjum heims. 

Efnisorð: hótelrekstur Ikea
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK